Ef þú ímyndar þér að þú sért að borða mat sem þér þykir freistandi minnkar löngunin í hann. Rannsókn sem vísindamenn við Varnegie Mellon háskólann í Pittsburg gerðu undir leiðsögn Carey Morewedge sýndi fram á að fólk sem var beðið um að ímynda sér að það væri að borða 30 M&M nammikúlur og var síðan gefin full skál sem það mátti borða eins og það vildi úr, borðaði minna heldur en þeir sem höfðu ekki ímyndað sér átið áður. Það kom ekki fram í rannsókninni hversu lengi þessi áhrif ímyndunarinnar vörðu og ekki var heldur athugað hvort munur væri á græðginni eftir því hvort um væri að ræða feitt fólk eða fólk í kjörþyngd.

Vissulega eru niðurstöður þessarar undarlegu rannsóknar athyglisverðar, en það er erfitt að ímynda sér hvernig hægt er að notfæra sér ímyndunaraflið til þess að draga úr áti.

Auðvelt er að falla í þá gryfju að fara að hugsa um matarilm eða bragð af ákveðnum mat. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að það að hugsa um matarilm og bragð af ákveðnum mat eykur matarlystina öfugt við það að ímynda sér að verið sé að borða matinn. Við skulum því setja þessa rannsókn í fróðleiksbankann, en ekki endilega reynslubankann.

(Science, 330: 1530-1533, 2010)