Orkujafnvægið á milli neyslu- og brennslu hitaeininga ræður því hvort þú léttist eða þyngist. Þegar horft er til lengri tíma eru fáir sem geta haldið aukakílóunum í skefjum með því einu að æfa mikið. Æfingar brenna vissulega hitaeiningum, efla efnaskipti og hafa hin ýmsu áhrif sem bæta lífsgæði okkar og gera lífið yfir höfuð miklu betra en annars.

Þegar til lengri tíma er litið hafa æfingar mikil og jákvæð áhrif á efnaskipti okkar og skipta því miklu máli þegar baráttan við aukakílóin er annars vegar. Framboð á hitaeiningum í ýmsu formi er hinsvegar það mikið að auðvelt er að klúðra árangrinum sem fenginn er með hreyfingu og æfingum.

Rannsókn sem gerð var við Háskólann í Missouri á offituhneigðum rottum (já- þær eru til) einbeitti sér að því að skoða áhrif þess að stunda fyrst og fremst æfingar eða skera fyrst og fremst niður hitaeiningar. Þyngd og efnaskipti voru borin saman í þessum tveimur hópum. Báðir hóparnir léttust svipað en rotturnar sem voru látnar stunda mikla hreyfingu brenndu meiri fitu, voru viðbragðsbetri gagnvart öllum átökum og hreyfingu, meltingarflóran var betri og virkni brúnu fitunnar var meiri. Allt stuðlar þetta að fitubrennslu og orkueyðslu. Æfingar eru því skilvirkari en niðurskurður hitaeininga einn og sér til lengri tíma en hafa ber í huga að hvorutveggja eru háð hvort öðru. Það að æfa vel þýðir ekki að þú hafir þar með efni á að háma í þig allt sem til er í ísskápnum. Borðaðu hóflega og æfðu reglulega.

(Medicine Science Sports Exercise, vefútgáfa 29 apríl 2016)