Sjónvarpsþættirnir sem nefnast Biggest Loser hófu göngu sína í Bandaríkjunum 2004 og hafa fjölmargar sjónvarpsstöðvar víðsvegar um heiminn framleitt sína eigin útgáfu af þessum þáttum, þar á meðal hér á landi. Í þáttunum keppir hrikalega feitt fólk um verðlaunafé sem sá fær sem léttist mest.

Langtímarannsókn á 14 keppendum í Biggest Loser undir stjórn Erin Fothergill og Kevin Hall sem starfa við Heilbrigðisstofnunina í Bethesda í Maryland sýndi fram á að keppendur í Biggest Loser léttust að meðaltali um 59 kíló en höfðu þyngst aftur um 41 kíló að sex árum liðnum. Efnaskipti í hvíld eru mælikvarði á brennsluhraða hitaeininga en hann minnkaði um 610 hitaeiningar á dag en sex árum síðar hafði efnaskiptabrennslan minnkað enn frekar um 704 hitaeiningar á dag. Hægari efnaskipti stuðluðu þannig að nánast óumflýjanlegri þyngingu og talið er líklegt að keppendur hefðu þyngst meira ef frægðin í kjölfar þáttana gerði það ekki að verkum að margir voru að fylgjast með þeim.

(Obesity, vefútgáfa 19. apríl 2016)