Augljóst er af lestri fjölda rannsókna sem gerðar eru víða um heim þessi misserin að töluverðar vonir eru bundnar við að með einhverjum hætti verði hægt að nota eiginleika brúnnar líkamsfitu til þess að leysa offituvandann. Mannskepnan er þannig samsett að flest okkar hafa full mikið af svonefndri hvítri fitu, en allir hafa eitthvað en mun minna magn af brúnni fitu. Hvíta fitan er fyrst og fremst forðageymsla líkamans fyrir orku ef á þarf að halda en brúna fitan virðist breyta orku í hita í stað þess að geyma hana. Vandamálið er að flest okkar hafa of mikið af hvítu fitunni.

Vísindamenn við John Hopkins Háskólann í Bandaríkjunum hafa þróað tækni við að breyta hvítri fitu í brúna – í rottum. Þeim tókst þetta með því að draga úr virkni matarlystar-örvandi prótíns sem kallast NPY. Þessi aðferð er að stíga sín fyrstu skref og lítið er vitað um hversu heilsusamleg eða virk hún er til lengri tíma litið. Vísbendingar eru um að ræktun brúnnar fitu kunni ef til vill að vera lykillinn að sigrinum á offitufaraldrinum. Það verður því fróðlegt að fylgjast með áframhaldi þessara rannsókna í framtíðinni.

(BBC News, 3. Maí 2011)