Kólesteról er fituefni sem hver einasta fruma líkamans þarf á að halda. Ekki er þó nauðsynlegt að fá kólesteról í fæðunni, a.m.k. ekki eftir fyrsta aldursárið, því að líkaminn getur sjálfur myndað allt það kólesteról sem hann þarf á að halda. Allir menn eru með kólesteról í blóðinu en magnið er mjög einstaklingsbundið. Kólesteról blóðs er ævinlega bundið sérstökum flutningsefnum sem nefnast fituprótein en helstu flokkar þeirra eru HDL eða eðlisþungt fituprótein og LDL eða eðlislétt fituprótein. Heilbrigðir, vel nærðir einstaklingar geta verið með kólesteról í blóði allt frá 3 millimólum í lítra í yfir 10 millimól. Því hærra sem kólesterólið er því meiri líkur eru á æðakölkun – en þá skiptir líka máli hvort um er að ræða hækkun sem er bundin HDL eða LDL. LDL-kólesteról hefur tilhneigingu til að setjast í æðaveggi og valda æðakölkun en HDL hefur ekki slík áhrif; meira að segja er talið æskilegt að HDL-kólesteról sé sem hæst þar sem margt bendir til þess að HDL-sameindin gegni mikilvægu hlutverki við að flytja kólesteról úr æðaveggjum til lifrarinnar. Stundum er jafnvel talað um „góða kólesterólið“ og er þá átt við HDL-kólesteról en LDL er á sama hátt nefnt „vonda kólesteólið“.

(Bæklingur  Lýðheilsustöðvar: Ábendingar um mataræði)