Hvernig stendur á því að stundum veldur hungrið því að þú vilt helst borða heilan poka af kartöfluflögum, hamborgara eða raða í þig haug af sælgæti, helst allt á sömu stundu, en stundum koma tímabil þar sem þú ert laus við allar langanir í þennan mat? Þetta er ekki eitthvað sem þú ert að ímynda þér, heldur er flókið kerfi í líkamanum sem hefur það hlutverk að kveikja eða slökkva á hungri. Heilinn fær boð frá þessu boðkerfi líkamans um að nú sé líkaminn svangur. Þetta kerfi hefur séð um að stjórna okkur í milljónir ára og var satt að segja ekki „hannað“ með nútímann í huga þar sem hægt er að fullnægja þessum þörfum með því að skreppa inn í næstu verslun sem full er af lífsins dásemdum. Í dag er yfirleitt óþarfi að nota þessar frumstæðu hvatir til að berjast, drepa, veiða eða bjarga sér, en engu að síður hvetur það þig til þess að háma í þig ef hungur sverfur að og svo sannarlega var þetta kerfi ekki búið að þróast til þess að verjast offitu. Til þess að verjast þessum sveiflum í hungri og oft á tíðum geðsveiflum einnig sem oft vilja haldast í hendur við hungrið, er best að vera meðvitaður um mataræðið og gæta þess að borða reglulega yfir daginn og stunda æfingar. Þannig geturðu lært að lifa með „villimanninum“ sem býr hið innra með þér.