Hvernig stendur á því að sumir virðast geta borðað hvað sem er og eins mikið og þeim sýnist án þess að fitna? Aðrir mega varla horfa á súkkulaði eða ísdollu án þess að þyngjast um það sem því nemur. Spurningin er hvort þeir sem þyngjast hafi einhverja afsökun sem hægt er að taka gilda eða eru þeir einfaldlega að uppskera samkvæmt lífsstílnum sem þeir lifa? Vísindamönnum hefur tekist að þróa aðferð til þess að komast að því hvaða fólki hættir til að þyngjast. Líkaminn reynir yfirleitt að halda ákveðnu þyngdarjafnvægi og þegar menn borða of mikið hraðar líkaminn efnaskiptunum og dregur úr matarlyst. Því miður virkar þetta kerfi betur í sumum en öðrum. Fólk sem viðheldur þyngd sinni auðveldlega hraðar yfirleitt efnaskiptunum þegar það borðar of mikið og því tekst að brenna nánast 70% af aukahitaeiningunum sem það borðaði. Í ljósi þessa hafa vísindamenn snúið sér í auknum mæli að því að reyna að finna leiðir til þess að hraða efnaskiptum fólks sem á erfitt með að halda aukakílóunum í skefjum. 
(Nutr Rev. 59: 48-60, 2001)