Broddur er fyrsta mjólkin sem spendýr gefa frá sér eftir burð. Margar rannsóknir í Finnlandi hafa sýnt fram á að broddur eykur svokallaðan IGF-1 vaxtarþátt. Vaxtarhormón í líkamanum hafa m.a. það hlutverk að ýta undir það að IGF-1 vaxtarþátturinn stuðli að vefjavexti. Þrátt fyrir að rannsóknir hafi sýnt fram á að broddur auki vefjavöxt þá hafa þær ekki sýnt fram á bætingu í íþróttaframmistöðu sem mæld var með lóðréttum stökkum. Dr. Jose Antonio og félagar við Háskólann í Delaware og Nebraska í Bandaríkjunum gerðu rannsókn sem fólst í að gefa 20 manns 20 g af broddi eða lyfleysu (mysuprótín) á dag í átta vikur. Þeir sem tóku þátt í rannsókninni stunduðu allir líkamsrækt í tækjum og þolfimi. Hópurinn sem fékk broddinn bætti á sig rúmlega einu og hálfu kílói af hreinum vöðvamassa en viðmiðunarhópurinn stóð í stað. Hvorugur hópurinn bætti árangur sinn í bekkpressu, né í þolprófi á hlaupabretti. Eins og staðan er í dag þarf að gera frekari rannsóknir á langtímaáhrifum brodds á vöðvamassa og frammistöðu í íþróttum en eins og vísindamennirnir segja, þá virðist broddur vera umhugsunarverður sem staðgengill stera vegna uppbyggingaráhrifa sinna.