Mörg hundruð ungra íslendinga leita sér aðstoðar á hverju ári vegna þess að þeir hafa misst tökin á lífi sínu eftir neyslu kannabisefna. Listinn yfir neikvæð áhrif kannabisneyslu er langur en hér er ekki ætlunin að telja hann upp, heldur að nefna atriði sem minna hafa verið í umræðunni.
Almennt er talað um kannabis sem afurðir hampjurtarinnar, öðru nafni kannabisplöntunnar (Cannabis sativa). Helstu afurðirnar eru í grófum dráttum þrjár: maríjúana, hass og hassolía. Í undirheimum gengur maríjúana undir slangrinu gras, maríanna, maría, jóna eða auli. Slanguryrðin yfir hass eru hinsvegar skítur, stuð, afgani, líbanói, bútur, moli eða hnulli.
Kannabisneysla hefur lengi verið nokkuð almenn hér á landi og þá helst á hassi. Munurinn á maríjúana, hassi og hassolíu er sá að maríjúana er þurrkuð og grófmulin blanda blómsprota og laufs. Hass er mulin, fínunnin pressuð og hreinsuð kvoða oft pressuð í litlar kökur. Hassolía er búin til með því að lífræn leysiefni einangra vímuefnið sjálft. Hassolían getur þannig innihaldið mesta magnið af kannabínóíðum.
Tetrahydrókannabínól sem hér á landi er oftast kallað THC er einn af mörgum kannabínóíðum sem eru í kannabisplöntunni.
Magn THC í maríjúana er oft 5-10 mg í gramminu. 30-70 mg í gramminu af hassi og 50-120 mg í gramminu af hassolíu.
Hass er oft reykt í pípum, stundum blandað við te. Maríjúana er oftast reykt í vöfðum sígarettum en hassolían er reykt þannig að nokkrir dropar eru settir í tóbak sem síðan er reykt.
Flestir þekkja til ættingja sem hafa þurft að takast á við vandamálin sem fylgja neyslunni. Oft er fólk grunlaust um neyslu sinna nánustu en fyrr eða síðar koma fram ákveðin einkenni.
Algengast er að upp komist um neyslu þegar unglingar einangrast, sýna óeðlilegt ábyrgðarleysi, árásarhneigð, verða þunglyndir og hætta að sinna eðlilegum tengslum við fjölskyldu og vini. Þeim verður sama um allt og allur metnaður hverfur.
Enginn áhugamál, sinnuleysi og snarversnandi gengi í skóla og námi geta einnig verið vísbending um neyslu kannabisefna þó aðrar ástæður kunni að liggja að baki. Skert námshæfni eykst eftir því sem neyslan hefur staðið lengur.
Neysla kannabisefna er ekki bundin við unglinga og ungt fólk. Íþróttamenn eiga það til að neyta kannabisefna með fremur dapurlegum afleiðingum. Viðbragðsflýtir minnkar, hæfileikinn til að einbeita sér versnar, dómgreind hrakar og ýmis áhættuhegðun eykst.
Dómgreindarskortur og áhættuhegðun í kynlífi á það til að enda með ótímabærri þungun eða ýmsum smitsjúkdómum eins og klamedíu, lekanda eða eyðnismiti.
Nýlega voru niðurstöður endurskoðunar á 15 rannsóknum birtar í Journal of Science and Medicine in Sports. Þar kemur fram að maríjúana dregur úr getu íþróttamanna í bæði þol- og styrktargreinum. Niðurstöðurnar sýndu einnig fram á tengsl við þrefalt meiri hættu á dauða vegna háþrýstings. Hættan var í beinu samhengi við lengd neysluferils.
(Journal of Science and Medicine in Sport, 20:825-829, 2017; European Journal of Preventive Cardiology, vefútgáfa í ágúst 2017; Saa.is, Spurningar og svör um kannabisefni; Visindavefur.is/svar.php?id=6217)