Breskir vísindamenn telja sig hafa fundið offitugen. Í rannsóknum sem náðu til 40.000 manns kom í ljós að þeir sem hafa afbrigði af geni sem kallast FTO eru um 70% líklegri til þess að verða offeitir. Sagt er frá þessari niðurstöðu í tímaritinu Science.Offitugenið er mjög algengt. Helmingur allra fullorðinna eru með eitt afbrigði af þessu geni og eru að meðaltali rúmlega einu kílói þyngri en þeir sem hafa ekkert afbrigði af þessu geni. Þeir sem eru svo óheppnir af hafa tvö afbrigði af geninu (16%) eru að jafnaði 3 kílóum þyngri. Vísindamennirnir sem standa að þessum rannsóknum vonast til þess að aukin þekking á sviði erfðafræðinnar komi til með að hjálpa til í baráttunni við aukakílóin. Ekki veitir af í ljósi þess að offituvandamálið er að verða eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál nútímans.