Eitt það heitasta sem lesa má um í helstu líkamsræktartímaritum er að eplaflus hafi svipuð áhrif og anabólískir vefaukandi hormónar á vöðvarýrnun. Rannsókn á músum sem gerð var við háskólann í Iowa í Bandaríkjunum sýnir fram á að ursolic sýran sem er í eplaflusi dregur úr vöðvarýrnun á föstu eða eftir mænuskaða. Bætiefni sem innihéldu Ursolic sýru juku sömuleiðis vöðvamassa í heilbrigðum músum. Vísindamennirnir lögðu fram þá tilgátu að vefaukandi áhrif ursolic sýrunnar megi rekja til aukinna insúlínboða í stoðvöðvum og bælingu genastarfsemi sem bendluð hefur verið við vöðvarýrnun. Það sem vakti athygli var að heilbrigðar mýs urðu grennri og blóðsykur, þríglyseríð og kólesteról lækkaði. Þessi óvæntu og jákvæðu áhrif epla undirstrika að heppilegt er að þau séu hluti af hollu og heilbrigðu mataræði.

(Cell Metabolism, 13: 627-638, 2011)