Bardagaíþróttafélagið Mjölnir er með þá nýjung að bjóða upp á þrektíma og bera æfingarnar nafnið Víkingaþrek. Í tímunum ægir saman ýmsum æfingaaðferðum og þjálfurunum er ekkert heilagt þegar kemur að því að setja saman æfingu. Mjölnir vill ekki festast í kreddum heldur prufar reglulega nýja hluti og hendir út gömlum, bara til þess að geta „fundið“ þá aftur síðar. Æfingarnar eru því bæði af nýjum og gömlum toga en aðal áherslan er sú að ná hámarks árangri samhliða því að fólk hafi sem mest gaman af. Tímarnir eru stuttir, um 40 mínútur í senn, sem er líka nýjung í líkamsrækt og unnið er með eftirfarandi áherslur í huga: sprengjukraft, styrk, þrek og þol. Tímarnir eru einnig skemmtilega settir saman og ætti engum að leiðast. Eins og víkingarnir forðum æða Mjölnismenn um víðan völl styrktaræfinga og nýta sér það sem best þykir hverju sinni. Á æfingum geturðu t.d. átt von á því að æfa með ólympískum lóðum, ketilbjöllum, eigin líkamsþyngd, sleggju og boxpúðum, svo eitthvað sé talið til.

Æfingarnar bera nöfn frægra Víkinga og sögufrægra atburða úr Íslandsögunni eða goðafræðinni og endurspeglar þá viðkomandi nafn áherslur og markmið æfingarinnar. Dæmi um þetta er t.d. æfingin “Gunnar á Hlíðarenda” en þar er stökk- og sprengikraftur æfður enda átti hetjan frá Hlíðarenda að geta „hlaupið hæð sína í öllum herklæðum og var sterkur og allra manna best vígur“. Annað dæmi er æfingin „Grettir sterki“ en þá er áhersla lögð á að efla hámarksstyrk og kennd eru góð glímutök sem gera mönnum kleift að lyfta hver öðrum, en eins og flestir vita þá var Grettir rammur að afli og glíminn.

Þjálfarar í Vikingaþrekinu hjá Mjölni hafa viðtæka reynslu og eru margir afreksmenn í íþróttum. Í hópnum eru t.d. Íslandsmeistarar í brasilísku jiu jitsu, karate, hnefaleikum og frjálsum íþróttum. Einnig eru tveir sjúkraþjálfarar í hópnum. Einn mesti afreksmaður Íslands, Gunnar Nelson, kemur mikið að því að sjóða saman æfingar með þjálfurunum. Allir helstu þjálfarar í Víkingaþrekinu hafa einnig kennsluréttindi frá Steve Maxwell.

Í hverjum mánuði hefjast fjögurra vikna grunnnámskeið fyrir Víkingaþrekið. Námskeiðið fer rólega af stað og er markvist byggður upp styrkur og úthald í fjórar vikur. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem treysta sér ekki til að hoppa beint inn í reglulega tíma og þeim sem hafa ekki reynslu í lyftingum með ketilbjöllum og ólympískum stöngum. Á námskeiðinu er farið vel í alla grunntækni í lyftingum og kennt er að kýla og sparka rétt í púða. Einnig eru kenndar æfingar með eigin líkamsþyngd og að berja sleggju í dekk og margt fleira sem nýtist vel til æfinga.

Víkingaþrekið í Mjölni hefur mælst ákaflega vel fyrir og er aðsóknin framar öllum vonum að sögn aðstandenda bardagaklúbbsins. Æfingarnar höfða greinilega til breiðst hóps fólks því þarna æfa bæði kyn á öllum aldursstigum og í hvaða formi sem er, allt frá byrjendum sem eru að stíga sín fyrstu skref í líkamsrækt til þrautþjálfaðra afreksmanna í íþróttum og sérveitarmanna lögreglunnar. Í Víkingaþrekinu ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi.