Niðurstöður nýlegrar rannsóknar við Harvard háskólann (Cambridge, MA) benda til tengsla á milli skorts á D-vítamíni við hjartasjúkdóma og ýmis önnur heilbrigðisvandamál.Þeir sem hafa lítið af D-vítamíni virðast frekar vera með of háan blóðþrýsting, sykursýki og offitu.

Leidd eru rök að því að ástæðan sé sú að D-vítamín hafi stóru hlutverki að gegna fyrir ónæmiskerfi líkamans.

Eftir því sem meira var af D-vítamíni í líkama þeirra sem tóku þátt í rannsókninni var áhætta þeirra gagnvart þessum sjúkdómum minni. Þetta þýðir hinsvegar ekki það að ráðlegt sé að taka inn mikið af D-vítamíni í formi bætiefna. Of mikið af D-vítamíni getur verið hættulegt. Ráðlagður dagsskammtur af D-vítamíni er 200 alþjóðaeiningar á dag fyrir börn og fullorðna upp að 50 ára aldri, en 400-600 alþjóðaeiningar fyrir þá sem eru eldri. Það er hægt að láta lækna mæla hversu mikið af D-vítamíni er í líkamanum. D-vítamín er eitt af hinum svokölluðu fituleysanlegu vítamínum og hleðst því upp í líkamanum ef tekið er mikið af því. Þannig geta komið fram eitrunareinkenni ef of mikið er tekið af því. Feitur fiskur inniheldur mikið af D-vítamíni og ýmsar mjólkurvörur. Hægt er að taka bætiefni eins og Lýsi ef grunur leikur á að það vanti D-vítamín, en allt er best í hófi.