Eitt heitasta og nýjasta æðið hér á landi innan æfingastöðvana er Crossfit. Eflaust má þakka velgengni þessa æfingakerfis til þess að það fékk mikla kynningu þegar Anný Mist Þórisdóttir sigraði á heimsmeistaramótinu í Crossfit fyrir skemmstu og vann þar fúlgur fjár í verðlaun.

Crossfit æfingakerfið rekur uppruna sinn til þess að Greg og Lauren Glassman opnuðu fyrstu Crossfit æfingastöðina í Santa Cruz 1995 í Kaliforníu. Greg sem var leikfimikennari var sama ár ráðinn sem þjálfari lögregluliðs Santa Cruz. Árið 2005 höfðu 18 aðrar Crossfit æfingastöðvar verið opnaðar en á þeim tímapunkti varð sprenging í markaðssetningu kerfisins og í síðan 2005 hafa um 2000 æfingastöðvar víðsvegar um heiminn byrjað að bjóða upp á Crossfit í einhverju formi.

Árið 2007 var byrjað að keppa í svokölluðum Crossfit leikum þar sem verðlaunafé var strax veglegt fyrir sigurvegara þökk sé Reebook sem frá upphafi ver stuðningsaðili keppninnar og veitir alls um eina milljón dollara í verðlaun á leikunum. Leikarnir hafa eflaust átt sinn þátt í að kynna æfingakerfið fyrir umheiminum og stuðlað þannig að fjölgun æfingastöðva sem bjóða upp á kerfið.

Crossfit gengur út á þá staðhæfingu að til þess að öðlast heilbrigði og hreysti þurfi tíu lykilþættir að vera til staðar: hjarta- og lungnaþol, úthald, styrkur, liðleiki, lipurð, orka, hraði, jafnvægi, samhæfni og nákvæmni. Hreysti er skilgreind sem færni einstaklingsins í öllum þessum þáttum. Mikið kapp er lagt á það í Crossfit að þessir þættir séu mælanlegir með einhverjum hætti.

Æfingakerfið sjálft ber þess einkenni að vera upphaflega hannað fyrir lögreglu- slökkviliðs- og hermenn og minnir um margt á BootCamp æfingakerfið. Þróunin hefur orðið sú að almenningur hefur líka tekið þessu æfingakerfi opnum örmum – hugsanlega á kostnað iðkendafjölda BootCamp æfingakerfisins. Þjálfunin byggist á að koma iðkandanum í fjölhæft form og algengt er að þjálfarar í Crossfit líti á sjálfa sig sem nokkurs konar andspyrnuafl gagnvart hefðbundnum æfingaaðferðum. Crossfit byggist þó á samblöndu margra þjálfunaraðferða sem þekkjast í fleiri æfingakerfum. Blandað er saman ólympískum lyftingum, kraftlyftingum, spretthlaupi, ketilbjölluæfingum, leikfimi, fimleikaæfingum, sundi, hlaupum og hjólreiðum svo eitthvað sé nefnt. Einnig er sippað, hlaupið, róið, klifrað í köðlum og burðast með þunga hluti. Engan skal undra að þetta kerfi hafi verið hannað upphaflega fyrir lögreglu- og slökkviliðsmenn sem þurfa að vera í góðu alhliða formi. Notað er sama æfingakerfið fyrir alla, sama á hvaða aldri fólk er eða í hversu góðu formi það er, en álagi og þyngdum breytt í samræmi við getu hvers og eins.

Þeir sem hafa æft annað hvort BootCamp eða Crossfit æfingakerfin hafa náð góðum árangri á Þrekmeistaranum sem hóf göngu sína hér á landi 2001. Ekkert sérstakt æfingakerfi hefur verið í gangi fyrir Þrekmeistarann en sú keppni byggist á fjölhæfu formi og því hafa þeir sem æfa BootCamp og Crossfit náð fínum árangri á Þrekmeistaranum. Skemmst er að minnast þess að Annie Mist var í verðlaunasæti 2008 á Þrekmeistaranum.