Það fer ekki framhjá þeim sem það reyna að manni hitnar við að borða sterkan Mexíkanskan mat sem inniheldur chili-pipar. Fæðutegundir sem auka brennslu fá mikla athygli þessa dagana þegar hinn vestræni heimur gerist sífellt feitari. Capsaicin heitir efnið í chili-piparnum sem veldur hitanum. Líkaminn brennir fleiri hitaeiningum en annars í nokkra klukkutíma vegna þess að capsaicin eykur magn epinephrine hormónsins (adrenalíns) sem stuðlar að því að líkaminn noti fitu sem brennsluefni og örvar efnaskipti. Þessar niðurstöður hafa vakið töluverða athygli, en hitt er annað mál að niðurstöðurnar byggjast á einungis einum skammti. Ekki er vitað með vissu hvort fólk venjist áhrifunum- eða öllu heldur hvort áhrifin dvíni þegar líkaminn venst þessu heita mataræði. Vissulega hljómar þetta vel, en Mexíkanar sem borða eflaust stóra skammta af chili-pipar virðast líka hafa fengið sinn skammt af offitufaraldrinum. Það er því óráðlegt að búast við því að chili-pipar eftir feitan borgara bjargi málunum.

(Kynnt á fundi um tilraunalíffræði 27. apríl 2010: International Journal of Obesity, 29: 682-688, 2005)