Metsölulistar yfir bækur innihalda yfirleitt eina eða fleiri megrunarbækur. Það virðist vera hægt að ganga að því vísu að bækur um megrun seljist. Skiptir þar litlu hvort bækurnar ráðleggi kolvetnasnautt, kolvetnaríkt, prótínsnautt eða prótínríkt mataræði. Þær seljast allar ágætlega. Allir þessir megrunarkúrar eiga hinsvegar eitt sameiginlegt. Enginn þeirra virkar vel til lengri tíma en 6–12 mánaða.  Samkvæmt skýrslu sem Anthony McCall við háskólann í Virginíu í Bandaríkjunum gerði er eina raunhæfa leiðin til þess að léttast til lengri tíma að gæta þess að brenna fleiri hiteiningum en fást með fæðunni hver sem hún er. Þetta hefur oft komið fram í greinaskrifum Fitnessfrétta í gegnum árin og ekkert haggar þessari eðlisfræðilegu staðreynd. Engu að síður kokka menn saman nýja megrunarkúra og matreiða þá ofan í fjöldann í formi nýrrar „byltingakenndrar“ metsölubókar. Hlutföll orkuefnanna, fitu, prótíns og kolvetna leika aukahlutverk þegar raunveruleikinn er annars vegar. Heildar-hitaeiningafjöldinn er það sem skiptir máli. Heilbrigður lífsstíll sem byggir á hreyfingu sem er í samræmi við orkuneyslu er það eina sem virkar til lengri tíma. Ef þú brennir 2000 hitaeiningum á dag með grunnefnaskiptum og hreyfingu fitnarðu ef þú borðar meira en 2000 hitaeiningar á dag. Ef þú borðar færri en 2000 hitaeiningar á dag – léttistu. Punktur.

(Current Diabetes Reports, 10:165-169, 2010)