Menn eru duglegir að rífast um það hversu mikið prótín við þurfum. Sitt sýnist hverjum. Næringarfræðingar voru hér áður fyrr tregir til að viðurkenna að íþróttamenn og þess þá heldur vaxtarræktarmenn þyrftu meira prótín heldur en meðalmaðurinn.

Í dag hefur þjóðfélagið breyst það mikið að líkamsræktarstöðvarnar eru orðnar vinnuveitendur næringarfræðingana. Merkilegt nokk. Í dag eru flestir næringarfræðingar sammála um að íþróttamenn þurfi reyndar meira prótín en aðrir, en þó deila margir enn um það hversu mikið íþróttamennirnir þurfi.

Til eru samtök sem nefnast á enskunni „International Society of Sports Nutrition“ sem eins og nafnið gefur til kynna hefur næringarfræði íþróttamanna á sinni könnu. Þessi samtök tóku þá ákvörðun á síðasta ári að birta nokkurs konar leiðbeiningar og staðhæfingar um prótínneyslu íþróttamanna. Listinn byggist á niðurstöðum fjölda rannsókna og hljóðar þannig: – Æfingar auka þörfina fyrir prótín. – Fólk sem æfir mikið ætti að borða 1,4 – 2.0 g af prótíni fyrir hvert líkamskíló á dag. – Aukin prótínneysla sem hluti af fjölbreyttu mataræði hefur engin óæskileg áhrif á nýrnastarfsemi. – Prótíndrykkir geta gagnast vel við að uppfylla þarfir íþróttamanna fyrir prótín. – Mismunandi gæði og gerðir prótíns ráða miklu um amínósýruframboð. – Prótínneysla fyrir og eftir æfingar flýtir fyrir endurnæringu vöðva, eflir ónæmiskerfið og eykur hreinan vöðvamassa og styrk. – Sérhæfð bætiefni eins og kvíslgreindar amínósýrur (BCAA) geta aukið árangur íþróttamanna og flýtt fyrir endurnæringu. Journal International Society of Sports Nutrition, 26. September 2007.