Einurðin sem þarf í að æfa nær daglega af kappi er ekki öllum gefin. Sum okkar sinna það þægilegri vinnu eða námi að lítið mál er að enda daginn á því að taka hrikalega æfingu.

Eftir því sem árin færast yfir verðum við gjarnan uppteknari af streitu og álagi vegna vinnu eða hvað það kallast sem heldur okkur uppteknum daglangt. Það að koma heim eftir erfiðan dag og ætla að drífa sig á æfingu kann að hljóma vel snemma dags, en seinnipartinn segir orkuleysið til sín. Hvatinn að æfingunni virðist ekki jafn augljós þegar þreytan segir til sín og því er spurningin hvað er til ráða? Sitja uppi í sófa fyrir framan sjónvarpið með snakk það sem eftir lifir dags? Á svona orkulausum degi er ágætt ráð að gera sér grein fyrir því hvað er í gangi og bregðast við með því að fá sér orkuríka kolvetnamáltíð um klukkustundu áður en farið er á æfingu. Banani, orkustykki eða eitthvað svipað sem kemur blóðsykrinum í gang getur komið þér úr sporunum og á æfingu. Ekki sakar að blanda saman við þessa uppskrift smá viljastyrk.