Konur og karlar nota oft æfingar til þess að hressa sig við. Vel þekkt er að læknar ráðleggja þunglyndu fólki oft að stunda æfingar til þess að létta skapið. Rannsókn sem gerð var við Háskólann í Vermont staðfestir að æfingar bæti og kæti eins og það er kallað. Rannsóknin sýndi fram á að æfingar hafa jákvæð áhrif á skap sem varaði í a.m.k. 12 klukkutíma. Bornir voru saman mismunandi áhrifaþættir eins og taugaspenna, reiði, þreyta, eldmóður, ruglingur og þunglyndi. Athugaðir voru tveir hópar fólks. Annar hópurinn æfði hóflega á þrekhjóli í 20 mínútur en hinn hópurinn æfði ekkert. Skap breyttist til hins betra strax að æfingum loknum og hélst betra í 12 tíma. Ekki var að sjá að munur væri á skapi hjá þessum tveimur hópum þegar liðnir voru 24 tímar. Þetta segir okkur að það er mjög viturlegt að byrja daginn á æfingum, sumum veitti sjálfsagt ekki af að gera það á hverjum degi.

(Kynnt á ársþingi American College of Sports Medicine, júní 2009)