Feitur vs NormalMörgum reynist erfitt að forðast að þyngjast aftur eftir að hafa lagt mikið á sig við að losna við aukakílóin. Við þekkjum öll ótal sögur af fólki sem hefur lést um svo og svo mörg kíló – sumir – marga tugi kílóa og oftar en ekki fiska dagblöðin sögur þessa fólks og birta afreksviðtöl við það þar sem það lýsir galdrinum á bakvið kílóin sem fuku. Viðtölin sem fjalla um kílóin sem komu aftur eru færri – mun færri en kílóin sem komu aftur og hafa tilhneygingu til að vera fleiri en þau sem fóru. Fólk sem er búið að léttast mikið ætti kannski að geyma að fara í viðtal við fjölmiðla þar til liðið er a.m.k. eitt ár frá afrekinu.

Hvernig fara menn helst að því að viðhalda léttingu? Prótín og flókin kolvetni eru svarið. Einfalt en áhrifaríkt og krefst kannski smá útskýringa.

Evrópsk rannsókn sem náði til 1000 manns og stóð í 26 vikur kannaði áhrif fæðusamsetningar á möguleikann á að viðhalda þyngd sem náðst hafði með niðurskurði í mataræði.

Þeir sem tóku þátt í rannsókninni áttu það sameiginlegt að hafa lést um a.m.k. 8% líkamsþyngdar með því að vera á 800 hitaeininga fæði á dag. Borin var saman munurinn á að borða einföld kolvetni og lítið prótin við mataræði sem fólst í flóknum kolvetnum og miklu af prótínum og einnig voru áhrif hefðbundins mataræðis skoðuð. Flókin kolvetni og mikið af prótínum hægja á frásogi (meltingu) næringarefna sem aftur dregur úr hungurtilfinningu og minnkar líkurnar á ofáti. Þessar niðurstöður koma eiginlega ekki á óvart, en hitt þykir athyglisverðara hér á bæ að 1000 manns hafi tekist að halda geðheilsunni á einungis 800 hitaeiningum á dag í langan tíma.

(New England Journal of Medicine, 363: 2102-2113, 2010)