Símar og tölvur eru svefnræningjarÞegar horft er rúma öld til baka í tíma er ljóst að við erum farin að sofa mun minna en við gerðum árið 1900. Þá svaf fólk að jafnaði níu klukkustundir en þegar komið var fram á áttunda áratug síðustu aldar voru svefnvenjurnar komnar niður í sjö klukkustundir á sólarhring og sífellt styttist sá tími sem við leyfum okkur að sofa. Hugsanlega hefur svefninn meiri áhrif á okkur heilsufarslega en okkur grunar og athyglisvert er að á ekki lengri tíma en einni öld hafa svefnvenjurnar breyst verulega.

Kvillarnir sem fylgja svefnleysi eru fjölmargir. Er þar helst að nefna lélega einbeitingu, kvíðatilfinningu, orkuleysi, námsörðugleika, athyglisbrest, minni eftirtekt eftir smáatriðum og aukna tíðni umferðarslysa.

Okkur er öllum eðlislægt að sofa en spurningin er hvernig stendur á því að svefn er skyndilega orðið vandamál sem við ráðum ekki við? Hver er orsökin? Almennt séð erum við upptekin af því sem glepur athyglina. Þar ráða ferðinni spjaldtölvur, símarnir okkar, rafrænar bækur og allskyns skjáir með baklýsingu. Öll þessi tæki okkar varpa frá sér birtu sem truflar lífeðlisfræðileg viðbrögð líkamans. Bláa ljósið frá þessum skjám er sérlega varhugavert þar sem það hefur tilhneigingu til að halda okkur vakandi. Eru þá ónefnd áhrif þessara annars skemmtilegu tækja á okkur vegna rafsegulsviðs sem einnig er talin tengjast svefnleysi, höfuðverk og sveimhugahætti. Geislunin sem stafar frá símunum okkar truflar stöðvar í heilanum sem þjóna því hlutverki að framleiða hormón og hafa ýmis áhrif á líkamann. Við megum ekki gleyma því að hormónar í líkamanum stjórna óteljandi þáttum. Þeir stjórna m.a. tilfinningum, líðan og vöðvavexti svo afar fátt eitt sé nefnt. Hormónar eru leið líkamans til að stjórna og skipa fyrir í líkamanum ef svo má segja. Öll utanaðkomandi áhrif á hormónaframleiðslu líkamans geta því haft víðtæk áhrif á heilbrigði og líðan. Með því að umfaðma þessi tæki okkar og nota hvar og hvenær sem er erum við að bjóða ýmsum vandamálum heim sem hafa ekki sakað fram til þessa. Einn stærsti skaðinn er svefnleysið sem stafar af tilhneigingu okkar til að skemmta sjálfum okkur fram á miðjar nætur í innihaldslítilli afþreyingu sem því miður skilur ekkert eftir sig nema vanlíðan og þreytu daginn eftir.
(Proceedings National Academy Of Sciences, USA 112: 1232-1237, 2015)