Fyrir sælkera er fátt betra en alvöru steik. Gildir þá einu hvort hún er grilluð, pönnusteikt eða bökuð í ofni. Sumar staðreyndir eru þó óþægilegri en aðrar. Rautt kjöt eykur hættuna á sykursýki, kransæðasjúkdómum, hjartabilun, heilablóðfalli, mörgum tegundum krabbameina og ótímabærum dauða.

Fyrir sælkerann er það að taka af honum rautt kjöt eins og að taka snuð af smábarni. Hræðilegt. Heimurinn er ekki samur. Getur samt komist í vana enda við mennirnir aðlögunarhæf tegund.

Alicja Wolk við Karólínsku stofnunina í Svíþjóð birti fyrir skömmu niðurstöður safngreiningarrannsóknar sem dró fram óþægilega neikvæðar hliðar á kjötneyslu.

Hún bar saman tíðni ákveðinna sjúkdóma meðal fólks sem borðaði mismikið af rauðu kjöti. Nautakjöt, lambakjöt, kálfakjöt og svínakjöt var til skoðunar en einnig skynka, pylsur, beikon, bjúgu og spægipylsur.

Rautt kjöt og unnar kjötvörur auka hættuna á sykursýki, heilablóðfalli, kransæðastíflu og hjartabilun. Á því leikur enginn vafi. Hættan á sykursýki og kransæðasjúkdómum tvöfaldast hjá þeim sem borða unnar kjötvörur.

Þeir sem borða sjaldan rautt kjöt eða jafnvel aldrei eins og vegan – grænmetisætur eru í minni áhættu gagnvart þessum sjúkdómum en þeir sem borða reglulega rautt kjöt og unnar kjötvörur. Því miður. Sár sannleikur.

(Journal of Internal Medicine, 281: 106-122, 2017)