Gengið er út frá því að almenna reglan sé sú að þegar við erum komin á fullorðinsár séum við hætt að mynda fleiri fitufrumur þó að við fitnum svolítið. Fitufrumurnar geta þanist út og nýjar frumur myndast ekki svo auðveldlega. Þetta er ein ástæðan fyrir því að svo mikilvægt er að fitna ekki fyrir fimmtán ára aldurinn. Þeir sem fitna sem börn eða unglingar eiga að jafnaði erfiðara með að halda aukakílóunum í skefjum þegar á fullorðinsárin er komið.

Vísindamenn hafa nokkuð lengi vitað að hrikalega feitt fólk getur aukið fitufrumufjöldann þegar þær fitufrumur sem eru þegar til staðar eru orðnar „mettar“ af fitu. Rannsóknir hafa sýnt að grannir karlar og konur sem borða viljandi óhóflega í átta vikur geta myndað nýjar fitufrumur á fótum og rassi um leið og stærð annarra fitufrumna á maganum þenst út. Magafita er bendluð við að valda sykursýki tvö, of háum blóðþrýsting, auknu insúlínviðnámi, auknu kólesteróli og ótímabærum dauða – svo eitthvað sé nefnt. Hið undarlega er að fitan á rassinum er ekki jafn hættuleg og fitan á maganum. Talið er að magafitan eigi auðveldara með að fara út í blóðrásina og raski efnaskiptum líkamans óeðlilega mikið.

(Proceedings National Academy of Sciences, vefútgáfa 4. okt. 2010)