Helsta ástæða þess að talað er um að lax sé hollur matur er sú staðreynd að hann inniheldur mikið af omega-3 fitusýrum. Þær eru taldar vinna gegn hjartasjúkdómum, hjartaáfalli og heilablóðfalli og eru mjög mikilvægar fyrir eðlilegan þroska heilans, sérstaklega í ungabörnum. Omega-3 fitusýrur draga einnig úr einkennum liðagigtar, psóríasis og fæðingarþunglyndi.

Eldislax getur innihaldið allt að þrefallt hærra fituhlutfall en villtur lax. Hann er þó ekki endilega óhollari. Næringarefni geta verið mjög breytileg á milli eldislaxa og villtra laxa, en hvorutveggja fellur samt sem áður undir holla næringu. Það er því engin sérstök ástæða til að forðast eldislax umfram villtan lax.

Sumar rannsóknir hafa sýnt fram á að meira sé af mengandi eiturefnum í villtum laxi en eldislaxi. Magnið er hinsvegar það lítið að lítil ástæða er til að hafa áhyggjur af.

Samtök í heilbrigðisþjónustu í Bandaríkjunum sem nefnast Environmental Working Group sendu frá sér tilkynningu þar sem fullyrt var að laxaflök sem tekin voru sýni úr í þremur mismunandi borgum innihéldu hættulegt magn PCB efna sem gerir neyslu varasama – sérstaklega fyrir þungaðar konur.

Mismunandi staðlar eru í gangi yfir leyfilegt hámarksmagn PCB en magnið reyndist meira en Bandaríska Umhverfisverndarstofnunin (EPA) segir vera leyfilegt hámark. Hinsvegar var magnið minna en Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) heimilar.

Flestar fisktegundir innihalda omega-3 fitusýrur en þar má nefna villtan lax, síld, makríl og sardínur. Síðla árs 2015 samþykkti FDA erfðabreyttan lax í fiskeldi og ekki var farið fram á að hann yrði sérstaklega merktur sem slíkur á umbúðum. Það er því ekki alltaf hægt að sjá hvort lax í verslunum sé ættaður úr fiskeldi eða náttúrunni.
(ConsumerLab.com, 3. janúar 2016; ncbi.nlm.nih.gov, 9. febrúar 2017. ePub.)