Madur með pillurFlest af því sem skrifað er og skrafað um C og E vítamín er mjög jákvætt. Lengi vel var mikið ritað um að C vítamin í stórum skömmtum gæti flýtt fyrir því að menn næðu sér eftir kvef og bæði þessi efni hafa verið orðuð við að vera bestu sindurvararnir. Ekki skal dregið úr því, en hitt er annað mál að óvænt niðurstaða kom fram í rannsókn norska vísindamannsins Göran Paulsen sem kannaði áhrif þessara vítamína á árangur í vöðvauppbyggingu. Það er mjög algengt að líkamsræktarfólk taki C og E vítamín til þess að minnka líkurnar á kvefi í þeirri trú að þessi vítamín gegni mikilvægu hlutverki við að verja bandvefi gegn áhrifum lausra rafeinda í kjölfar erfiðra átaka.

Niðurstöður Göran fólust í að stórir skammtar af C og E vítamínum trufli eðlilegan vöðvavöxt. Miðað var við 1000 mg á dag af C vítamíni og 235 mg á dag af E vítamíni. Bæði vítamínin eru öflugir sindurvarar sem þýðir að þau verja frumur gegn skaðlegum áhrifum lausra rafeinda. Lausar rafeindir eru hvarfgjörn efni sem verða til við eðlileg efnaskipti í líkamanum. Mikið af hvarfgjörnum efnum eru talin valda frumuskemmdum og draga úr styrk ónæmiskerfisins sem getur í verstu tilfellum leitt til dauða. Það sem flækir málið er að þessi hvarfgjörnu efni gegna líka því hlutverki að hjálpa til við aðlögun að miklu æfingaálagi. Oxunarálag upp að vissu marki er gott og gagnlegt á meðan of mikið er skaðlegt. Íþróttamenn ættu því að reyna að fá C og E vítamín úr fæðunni. Appelsínur, grænmeti, avocado, hnetur, spínat, fiskur og fleira koma þar við sögu. Stórir skammtar af þessum vítamínum í gegnum bætiefni eru því ekki endilega að gera íþróttamönnum greiða.
(Journal of Physiology, vefútgáfa 31. október 2014)