Einn algengasti misskilningurinn meðal byrjenda í æfingasalnum er að hægt sé að minnka fitu á ákveðnum svæðum með ákveðnum æfingum. Marga dreymir eflaust um að geta fengið stælta magavöðva með því að gera endalausar magaæfingar. Heimurinn væri töluvert dásamlegri ef þetta væri hægt. Fótalyftur og uppsetur í nokkrar vikur og maginn fitulaus og flottur. Nei, svona virka hlutirnir ekki í þessum heimi. Allir sæmilega menntaðir þjálfarar geta borið vitni um að fita fer jafnt af líkamanum, ekki bara þeim líkamshluta sem er æfður.

Fita og vöðvar eru á sitthvoru blóðstreymiskerfinu og því fá vöðvar sem eru í átökum orku frá fituforða sem kemur jafnt frá öllum líkamanum.

Danskir vísindamenn hafa þó komist að því að niðurbrot fitu var meira í fituforða í nágrenni við vöðvana en í fituforða í nágrenni vöðva sem ekki voru æfðir.

Það gefur veika vísbendingu um að áhrif æfinga á fituforðann kunni að vera meiri á því svæði sem æft er (Am J Physiology Endocrinol Metab 292, E394, 2007). Bandarísk rannsókn við Háskólann í Suður-Illinoi sem stóð í sex vikur bendir hinsvegar til að miklar magaæfingar hafi engin áhrif á líkamsþyngd, fituhlutfall, fituþykkt á maga, mittismál né húðþykkt á maganum. Þeir sem tóku þátt í rannsókninni bættu hinsvegar þol í magaæfingum verulega. Ekki var gerð tilraun til að draga úr fjölda hitaeininga í mataræðinu og því þóttu niðurstöðurnar sýna að magaæfingar án breytinga á mataræði hefðu engin áhrif á magafitu. Ef þú vilt sjá magavöðva þarftu að breyta mataræðinu og gera magaæfingar.

(Journal Strength Conditioning Research, 25: 2559-2564, 2011)