Lyfjapróf í íþróttum eru strangari í Bretlandi en í flestum öðrum löndum og mikið eftirlit er með lyfjanotkun íþróttamanna. Samt sem áður er stefna stjórnvalda gagnvart steranotkun sú að auka fræðslu um þessi mál. Í Bretlandi er einungis hægt að fá stera gegn lyfseðli og notkun þeirra er ekki glæpur. Þar í landi er forvarnarstarf í gangi sem miðar að því að hindra nálaskipti eiturlyfjasjúklinga og hindra þannig útbreiðslu AIDS og lifrarbólgu. Af þeim sem nýta sér forvarnarstarfið eru 60% steranotendur. Dr. Robert Dawson, stjórnandi DISCUS (Drugs in Sport Clinic and User´s Support) mælir með því að læknar í Bretlandi bjóði steranotendum upp á heilbrigðiseftirlit og bjóði þeim að taka þátt í forvarnarstarfi gegn nálaskiptum. Hann segir svo frá að þrátt fyrir að steranotkun sé fordæmd í landinu sé lítið sem bendi til skaðsemi steranotkunar í heilbrigðum einstaklingum. Hann mælir ennfremur með því að íþróttamönnum og líkamsræktarfólki sem noti stera verði hjálpað í stað þess að láta sem vandinn sé ekki til staðar. Hér á landi varðar steranotkun við lög og aldrei hefur heyrst orð frá hinu opinbera um þörf á forvarnarstarfi gegn steranotkun, en það eina sem komið hefur fram á þessum vettvangi hefur komið frá íþróttahreyfingunni sjálfri sem því miður hefur fram til þessa fyrst og fremst verið í formi hræðsluáróðurs.

(The Practitioner, 11. Desember 2000)