Á hverju ári deyja 120.000 manns í Bandaríkjunum vegna þess að það gleymdi að taka blóðþrýstingslækkandi lyf. Þetta jafngildir því að 130 Íslendingar á ári deyji ótímabærum dauða vegna gleymsku. Líklegt er að heimfæra megi þessar tölur yfir á Íslendinga enda lífsstíllinn svipaður og hjá Bandaríkjamönnum.

Fjölmiðlar segja á hverjum degi fréttir af einstaka hryðjuverkatilfellum og glæpum með tilheyrandi aukafréttatímum. Það ratar sjaldnar í fréttirnar að fjöldi fólks láti lífið vegna þess að það gleymdi að taka pillu eða fara í göngutúr. Niðurstaðan er engu að síður sú sama. Fjöldi fólks deyr að óþörfu. Fjölmiðlar hafa tilhneigingu til að forgangsraða dánarorsökum eftir dramatík. Að gleyma að taka blóðþrýstingslyfin sín þykir lítil dramatík.

Hár blóðþrýstingur er venjulega einkennalaus. Stundum nefndur hinn hljóðláti dauðdagi. Hljóðlátur vegna þess hve grunlausir menn eru þar til þeir standa frammi fyrir dauðanum.

Talið er að einn af hverjum þremur fullorðnum á heimsvísu séu með of háan blóðþrýsting. Hægt er að vera með of háan blóðþrýsting árum saman án einkenna. Þar af leiðandi er afar mikilvægt að mæla hann reglulega. Það á ekki að þurfa að koma á óvart að um háan blóðþrýsting sé að ræða eins auðvelt og er að mæla hann.

Við hvern hjartslátt þrýstist blóð út í æðarnar sem myndar mikinn þrýsting á æðaveggi. Það getur valdið margvíslegum skemmdum um allan líkamann ef þrýstingurinn helst óeðlilega hár til lengri tíma. Hægt er að draga úr líkum þess að fá of háan blóðþrýsting með reglulegri hreyfingu, hollu mataræði, minnka saltneyslu, reykja ekki og nota ekki áfengi.

Hið sorglega er að nærri helmingur þeirra sem eru með of háan blóðþrýsting gleymir að taka lyfin sín og stundar hvorki reglulegar æfingar né hreyfingu. Þessi dauðsföll sem stafa af gleymsku eru því ótímabær.

Ef 130 manns létu lífið í umferðarslysum hér á landi á hverju ári er líklegt að gert yrði þjóðarátak til að takast á við orsökina. Það er því eðlilegt að setja spurningamerki við það hvort forgangsröðun og þögn fjölmiðla sé beinlínis lífshættuleg.
(Landlaeknir.is: Hár blóðþrýstingur og sjúkdómsbyrði á Íslandi 12. mars 2013; Journal Clinical Hypertension, 19: 51-57, 2017)