Kreatín er orðið heimsfrægt fyrir að bæta árangur í íþróttum, ekki síst kraftagreinum og er það vinsælasta meðal líkamsræktarfólks. Sagt er frá því á vef BBC að bætiefnið Kreatín hafi samkvæmt rannsókn reynst bæta minni og gáfur.

Kreatín er náttúrulegt efni sem fyrirfinnst í vöðvavef og hefur verið afar vinsælt meðal fólks sem hefur viljað bæta árangur sinn í líkamsrækt. Nú segja sérfræðingar að kreatín hafi hlutverki að gegna við að viðhalda orku til heilastarfsemi og kenning þeirra er sú að með því að taka kreatín eflist heilastarfsemin. Rannsóknin sem um ræðir tók sex vikur og fór fram í Sidney í Ástralíu á vegum háskólans í Macquarie og fól í sér að 45 grænmetisætur fengu ýmist lyfleysu (platpillu) eða kreatín eftir að hafa verið skipt upp í hópa.

Viðfangsefnin þurftu að vera grænmetisætur vegna þess að kreatín finnst í kjöti og ef þeir sem tóku þátt í rannsókninni hefðu borðað kjöt hefði verið erfitt að meta hversu mikið kreatín þeir fengju.

Eftir rannsóknina áttu þeir sem fengu kreatín auðveldara með að endurtaka talnarunur sem þeir áttu að leggja á minnið, heldur en hinir sem ekkert kreatín fengu. Einnig voru allir þátttakendur látnir fara í greindarvísitölupróf. Forsvarsmaður rannsóknarinnar var Dr Carolina Rae, en að hennar sögn var augljós og vel mælanlegur munur á aukinni heilastarfsemi hjá þeim sem fengu kreatín. Að meðaltali gátu menn munað sjö stafa talnarunur, en þeir sem fengu kreatín gátu munað að meðaltali 8,5 tölur.
Dr. Rae heldur því fram að kreatín auki þann orkuforða sem heilinn hefur til þess að vinna úr verkefnum og bæti þannig andlega hæfni.
(BBC News 12. ágúst 2003)