Heilinn og taugakerfið þurfa kolvetni til þess að starfa eðlilega. Í neyð getur líkaminn breytt ákveðnum amínósýrum í kolvetni til þess að viðhalda starfsemi þeirra ef engin kolvetni fást úr mataræðinu eða við svelti. Menn geta því orðið svolítið skrítnir í kollinum ef kolvetni skortir til langs tíma í mataræðinu. Kolvetni hafa hinsvegar áhrif á fleira en starfsemi heilans. Þýskir vísindamenn hafa sýnt fram á að hormónakerfi líkamans – og þá sérstaklega vaxtarhormónið sem er okkur nauðsynlegt – verður fyrir áhrifum. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar áróður fyrir kolvetnalitlum eða jafnvel kolvetnasnauðum matarkúrum er áberandi í netheimum og ýmsum miðlum.

Þýsku vísindamennirnir komust að því eftir rannsóknir á rottum að lifrin jók viðnám gegn vaxtarhormóninu þegar kolvetnasnautt mataræði var annars vegar. Vaxtarhormónið hefur mikilvægu hlutverki að gegna fyrir eðlilegan vöxt og þroska og áhrif þess á úrvinnslu fitu skiptir líkamsræktarfólk miklu. Rannsóknin þykir sýna að hægt er að hafa skaðleg áhrif á efnaskipti lifrarinnar sem og allan líkamann með ýktum breytingum á mataræðinu. Að því gefnu að færa megi niðurstöðurnar yfir á fólk er lærdómur þessarar rannsóknar sá að sýna hófsemi þegar ætlunin er að minnka kolvetnaneyslu.

(Endocrinology, vefútgáfa 22. Mars 2011)