Til þess að standast kröfur almennings um hollustuvörur eru margir matvælaframleiðendur sem berjast við að losna við transfitusýrur úr unnum matvælum. Transfitusýrur eru ein óæskilegasta fitutegundin, en það sem sett er í matvælin í staðinn fyrir þær er ekki endilega hollara, því miður.Sumar mikið unnar fæðutegundir eins og t.d. kartöfluflögur sem mörgum þykir ómótstæðilegt sjónvarps-snakk, verða ekki hollar sama hvað er að gert. Transfitusýrur hækka svokallað LDL kólesteról (þetta vonda) en lækka HDL kólesterólið (þetta góða) um leið. Ráðlegt er að borða ekki meira en 2 g af transfitusýrum á dag til þess að stuðla síður að hjarta- og kransæðasjúkdómum. Matvælaframleiðendur hafa reynt að skipta á tranfitusýrum í matvælum og mettaðri fitu. Mettuð fita er hinsvegar litlu skárri. Hvað er þá ráðlegt að gera? Jú, ef um það er að ræða er æskilegra að borða fæðutegundir sem innihalda ein- og fjölómettaða fitu. Sú fita er mýkri en sú mettaðra og þekkist yfirleitt á því að hún er fljótandi við stofuhita á meðan sú mettaða er hörð. Það eru hinsvegar litlar líkur á að þú finnir t.d. kartöfluflögur sem innihalda holla fitu. Ef þú ætlar að borða hollan mat, borðarðu einfaldlega ekki kartöfluflögur. Sumt verður aldrei í lagi sama hvaða slagorð auglýsendur nota.