Nokkrar rannsóknir hafa gefið til kynna að koffín auki heildarafköst í æfingum, ekki síst ef menn eru eitthvað illa fyrir kallaðir sökum svefnleysis. Spurningin er hinsvegar hversu mikið koffín þarf til að gefa það spark sem koffínið stendur fyrir?

Spænskir vísindamenn komust að því að 3 milligrömm af koffíni á hvert líkamskíló juku styrk í bæði efri og neðri hluta líkamans í æfingum. Engin virkni mældist við 1 mg á hvert líkamskíló. Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að sumt fólk bregst betur en annað við koffíni. Koffín eykur eflaust æfingaafköst en þá þarf að taka nægilega mikið magn. Sumir orkudrykkir innihalda ekki nægilega mikið af koffíni til þess að auka styrk og kraft og því hafa koffíntöflur komið til sögu síðastliðin ár í bætiefnabúrinu.

(Journal International Society Sports Nutrition, 9: 21, 2012)