HnébeygjaEkki er óalgengt að þjálfarar mæli ekki með hnébeygju vegna þess að þeir telja hana geta valdið meiðslum á hné. Hnébeygjan er tvímælalaust góð æfing og til þess að njóta góðs af henni eru gjarnan teknar svokallaðar “hálfbeygjur” sem nokkurs konar málamiðlun. Er þá einungis farið hálfa leið niður og jafnvel styttra. Til er stofnun í Bandaríkjunum sem heitir National Strength and Conditioning Association skammstafað NSCA og hefur m.a. ráðgefandi hlutverk þegar æfingar og þjálfun er annars vegar. Stofnunin stóð fyrir endurskoðun á hundruðum rannsókna sem gerðar hafa verið á æfingum og gaf að því loknu út yfirlýsingu þess efnis að hnébeygjur væru öruggar, árangursríkar og væru fyrirbyggjandi gagnvart meiðslum ef þær eru framkvæmdar rétt. Hnébeygjurnar hafa ekki áhrif á stöðugleika hnésins, heldur hafa mun fremur styrkjandi áhrif á vöðvafestingar og liði í neðri hluta líkamans. Miklu skiptir að gæta þess að vöðvarnir séu undirbúnir undir mikil átök þegar hnébeygjan er annars vegar og varast ber að “boppa” þegar komið er niður. Hnébeygjan er í miklu uppáhaldi hjá þeim sem vilja reyna að byggja upp styrk og stælingu á sem skemmstum tíma þar sem hún hefur áhrif á marga vöðvahópa.