Sagt er frá því í blaðinu Guardian að sykuriðnaðurinn í Bandaríkjunum hafi hótað að knésetja Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðana (WHO) með því að krefjast þess að bandaríska þjóðþingið hætti stuðningi við stofnunina ef leiðbeiningar um hollt mataræði sem nýlega voru gefnar út verði ekki afturkallaðar. Þar kom fram að sykur ætti ekki að vera nema 10% af mataræði fólks. Í því sambandi er rétt að benda á að ekki er verið að tala um heildar- kolvetnaneyslu, heldur einfaldan sykur. Fjallað er um þessa grein í leiðara Bændablaðsins og þar segir Ari Teitsson, formaður Bændasamtakana: „Viðbrögð margra öflugustu aðila heimsins á sviði framleiðslu matvæla og drykkjarvara við þessari niðurstöðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar hljóta að vera öllum hugsandi mönnum áhyggjuefni. Það að framleiðslurisarnir í Bandaríkjunum skuli ætla sér að kúga einhverja virtustu alþjóðastofnun heimsins til þess að birta ekki vísindalegar niðurstöður um áhrif mataræðis, sýnir á hvaða braut við erum komin í okkar kapítalíska hagkerfi. Ef það er í raun svo að Mammon telur sig geta stjórnað því hvaða þekking á heilbrigðissviði er birt og hver ekki þá gæti verið stutt í að velferð mannkyns verði fórnað á altari þess guðs.“