Hnébeygja fyrir framan tekur jafn mikið á stærstu vöðvahópana eins og hnébeygja fyrir aftan. Álag á hné og bak er hinsvegar minna og mögulegar þyngdir eru ekki jafn miklar.

Mun vinsælla er að taka hnébeygju með stöngina fyrir aftan bak, heldur en fyrir framan. Það krefst meiri liðleika að geta tekið hnébeygju fyrir framan og þyngdirnar sem hægt er að taka eru minni. Hugsanlega er það ein helsta ástæðan fyrir því að hnébeygja fyrir framan hefur aldrei náð jafn miklum vinsældum og sama æfing með stöngina á bakinu. Jafn algengt er að framkvæma hnébeygjuna vitlaust. Tilhneyging er til að standa of þröngt, halla sér of mikið fram og leggja þannig óeðlilega mikið álag á hné og neðra-bak.
Jonathan Gullett og félagar við Háskólann í Flórída komust að því að hnébeygja fyrir framan tekur jafn mikið á alla stærstu vöðvahópana eins og hnébeygja fyrir aftan. Álag á hné er hinsvegar ekki eins mikið. Þeir félagar fengu hóp manna til þess að taka 70% hámarksþyngdar í hnébeygju og mældu vöðvavirknina með svonefndum rafleiðnimælingum í vöðvunum. Með þessum mælingum er hægt að meta hversu mikið álag er á vöðvanum í mismunandi æfingum.
Athyglisvert var að mælingarnar sýndu að átakið á vöðvana var jafn mikið í hnébeygjum fyrir framan eða aftan, jafnvel þó mun meiri þyngdir væru notaðar í hnébeygju fyrir aftan.
Í flestum tilfellum má ætla að hnébeygja fyrir framan hafi ekki náð vinsældum vegna þess að margir eiga erfitt með að fá stöngina til þess að sitja vel efst á brjóstkassanum þegar sigið er niður. Með vilja og æfingu er hinsvegar hægt að ná þeim liðleika sem til þarf.
(Journal Strength Conditioning Research, vefútgáfa desember 2008)