Fram til þessa hefur skipulögð leit að blöðruhálskirtilskrabbameini falist í svonefndri PSA skimun með greiningu á blóðprufu. Nýverið lagði sérstök forvarnarnefnd í Bandaríkjunum til að hætt yrði að nota þessi blóðpróf. Eins frábært og það er þegar krabbamein sem þetta er greint á fyrri stigum þá er tilhneigin til ofgreininga vegna prófsins og meðferðarúrræðin geta haft í för með sér slæmar aukaverkanir sem skyggja á kostina. Ókostirnir geta verið þvagleki, getuleysi, hægðavandamál ofl vegna geislameðferða. Eins og við var að búast hefur þessi afstaða nefndarinnar verið mjög umdeild, ekki síst af hálfu þeirra sem eiga líf sitt að launa greiningu á fyrri stigum þessa illskeytta krabbameins. Sérfræðingar hafa þakkað blóðprufunum lækkandi tíðni þessa krabbameins. Eftir sem áður er það undir hverjum og einum komið að vega og meta kosti og ókosti við PSA skimun og viðbrögð við henni en karlmenn ættu að vera vakandi gagnvart öllum einkennum og ekki draga að heimsækja heimilislækninn við minnstu ástæðu. Hafa ber í huga að læknar sinna ekki eingöngu því að bjarga mannslífum í neyð – forvarnir eru líka mikilvægar.

(Annals of Internal Medicine, vefútgáfa 7. október 2011)