Vatn með máltíð dregur örlítið úr matarlystinni og er mikilvægur hluti heilsusamlegs mataræðis. Meirihluti fólks drekkur einhvern vökva með mat og vissulega hefur verið umdeilt hversu hollt það er. Kenningar hafa verið í gangi, sérstaklega meðal þeirra sem aðhyllast „náttúrulegt“ mataræði – ef það er til — um að fæðan nýtist betur ef ekki er drukkið vatn eða vökvi með máltíð. Fullyrðingin hér á undan um að vatnið dragi úr matarlyst á ættir sínar að rekja til rannsóknar sem gerð var við Háskólann í Norður-Karolínu í Bandaríkjunum sem gerð var undir stjórn Melissu Daniels og Barry Popkin. Rannsóknin sýndi fram á að sætir drykkir auka hitaeininganeysluna um 7,8% og jafnvel allt að 19% hjá sumu fólki. Fólk er jú ekki allt eins af guði gert. Svonefndir Diet-drykkir höfðu engin áhrif á heildarfjölda hitaeininga samkvæmt rannsókninni, en það er á skjön við niðurstöður annarra rannsókna sem hafa sýnt hið gagnstæða. Mjólk og ávaxtasafar auka hitaeininganeysluna um 15%, en eins og áður sagði virkar vatnið best til þess að hafa áhrif til hins betra. Það eru engar hitaeiningar í vatni.

Gallinn við vatn er að það er lítill bissness í að selja það, ekki síst hér á Íslandi. Miðað við ótal rannsóknir sem eiga það allar sameiginlegt að sýna fram á hin ýmsu jákvæðu áhrif vatnsdrykkju er merkilegt að almennt skuli vera jafn mikil neysla á hinum ýmsu „tilbúnu“ drykkjum eins og raun ber vitni. Skynsemin segir okkur að það sé ekkert vit í gosþambi, ávaxtasöfum og öðrum fjöldaframleiddum drykkjum. Engu að síður er stór hluti þeirra hitaeininga sem við innbyrðum í vökvaformi af ýmsu tagi. Líklega er málið það að við mannfólkið stöndum ekki sterkar andspænis freistingum heimsins en svo að öll skynsemi hverfur eftir heilaþvott viðstöðulausra sjónvarpsauglýsinga sem sýna fallega og hressa fólkið drekka gos- eða orkudrykki. Ef fallega fólkið í sjónvarpinu drekkur gos hlýtur það að gera okkur gott. Eða hvað?

(Nutrition Reviews, 68: 505-521,2010)