Glýsemíugildi er notað af vísindamönnum til þess að segja til um það hversu mikið og hratt fæðutegundir hækka blóðsykurinn. Venjulegur hvítur borðsykur hækkar blóðsykurinn mjög hratt og er því sagður með mjög hátt glýsemíugildi. Baunir, grænmeti, pasta og gróft brauð hækka hann hægt og eru því með lágt glýsemíugildi. Þarna er komin ein helsta ástæða andstöðunnar við einfaldan sykur og öllum neikvæðu áhrifum hans. Fæðutegundir með hátt glýsemíugildi vekja þau viðbrögð í líkamanum að mikið magn insúlíns er sent út í blóðið. Vísindamenn telja að fæðutegundir með miklum einföldum sykri sem jafnframt hafa þá hátt glýsemíugildi valdi svokölluðu insúlinviðnámi. Lesendur ættu að leggja þetta orð á minnið. Það á eftir að koma oft og mikið við sögu í heilbrigðismálum okkar. Þegar menn mynda insúlinviðnám dugar hefðbundið magn insúlíns í blóðrásinni ekki til þess að sinna því sem þarf að gera og því losar líkaminn sífellt meira insúlín. Of mikið af insúlíni í líkamanum hefur þegar verið bendlað við hjartaáföll, sykursýki, krabbamein, of háan blóðþrýsting og fitusöfnun á magasvæði. Þú getur spornað gegn of miklu insúlíni í líkamanum með því að borða fæðutegundir sem hafa lágt glýsemíugildi, viðhaldið hæfilegri líkamsþyngd og æft í a.m.k. 30 mínútur á dag.
(Eur. J. Clin. Nutr., 56: 1049-1071)