Alsælan hefur verið lofsömuð í sjónvarpsþáttum eins og Sopranos og fleirum og hefur á sér það orð að vera eiturlyf unga fólksins. Áróður gegn þessu eiturlyfi má sér lítils þegar ungmenni sannfæra hvert annað um sakleysi alsælunnar, enda er nafnið eitt meðmæli með henni og ungmennin taka yfirleitt mest mark á jafningjum sínum og vinum. Það er hætt við að afglöp æskunnar verði ekki aftur tekin miðað niðurstöður rannsóknar sem nýlega var kynnt. Rannsóknin sem kynnt var í ritinu American Journal of Psychiatry (158: 1687-1692, 2001) þá veldur notkun E-töflunnar eins og hún er oft kölluð hér á landi heilaskemmdum. E-taflan losar um hormónið serotonín í heilanum sem kallar fram vellíðunartilfinningu. Með því að taka E-töflur skemmist serotónín hormónakerfið í heilanum sem síðan ýtir undir minnisleysi og dregur úr eðlilegu hugsanamynstri. Samkvæmt rannsókninni urðu heilaskemmdir mestar hjá þeim sem tóku mest af E-pillunum. Vísindamennirnir báru saman fólk sem hafði tekið E-töflur við þá sem notuðu marijuana og þá sem notuðu engin eiturlyf. Samkvæmt niðurstöðunum voru það einungis þeir sem notuðu E-pillurnar sem höfðu skaddað serotóninsvæði í heilanum. Hvað sem því líður er ljóst að E-töflur og líkamsrækt eiga ekki samleið.