CLA er greinilega eitt af þeim bætiefnum sem fullyrða má að virki samkvæmt rannsóknum. CLA er bætiefni sem hefur náð góðri fótfestu meðal líkamsræktarfólks. Skammstöfunin stendur fyrir Conjugated linoleic acid og er orðið eitt vinsælasta bætiefnið í dag.Um er að ræða fitusýru sem finna má í kjöti, osti og ýmsum mjólkurafurðum. Ástæðan er sú að nánast í hverjum mánuði birtast niðurstöður rannsókna sem renna stoðum undir ágæti þess fyrir líkamsræktarfólk. Niðurstöðurnar sýna fram á að CLA brýtur niður fitu, dregur úr nýmyndun fitu og stuðlar að aukningu í hreinum vöðvamassa. Kanadískar rannsóknir hafa sýnt að fólk sem æfði í tækjasal losaði sig við eitt kíló af fitu á sjö vikna tímabili og bætti á sig einu og hálfu kílói af hreinum vöðvamassa á sama tíma. Hjá viðmiðunarhóp urðu litlar breytingar. Sá hópur fékk svokallaða lyfleysu. Helsta verkun CLA virðist vera falin í því að draga úr niðurbroti vöðva eftir æfingar. Þegar vöðvar taka á í æfingum valda átökin álagi sem veldur töluverðu niðurbroti vöðvans. Með tímanum aðlagast líkaminn álaginu og vöðvinn stækkar, en með því að draga úr niðurbrotinu er vaxtarhraðinn meiri en ella. Danskar rannsóknir hafa einnig sýnt fram á góðan árangur af CLA (Am J Clin Nutrition, mars 2006). Í þeim rannsóknum léttust þeir sem tóku CLA um 8% líkamsþyngdar sinnar á 28 vikna tímabili. Næstu 12 mánuði bættu þeir þeim aftur á sig eftir að töku CLA var hætt. Langtímaáhrif CLA eru því ekki sérlega vel þekkt og frekari rannsókna þörf. CLA er þó greinilega eitt af þeim bætiefnum sem hægt er að fullyrða að virki samkvæmt niðurstöðum rannsókna. Medicine Science Sports Exercise, 38:339-348, 2006