Þegar við teljum okkur loksins vita eitthvað fyrir víst þurfa vísindamenn endilega að flækja hlutina. Það hefur lengi verið á almannavitorði að kólesterólríkt fæði eykur hættuna á hjartasjúkdómum.

Sömuleiðis er vitað að svokallað LDL-kólesteról (vonda kólesterólið) og VLDL-kólesteról (líka vonda kólesterólið) eru hættuleg. Svonefnt HDL-kólesteról (góða kólesterólið) losar hinsvegar líkamann við umframmagn kólesteróls og dregur úr hjartasjúkdómum. Þetta eru enn sem komið er góð og gild vísindi. Vísindamenn við Karolínsku stofnunina í Stokkhólmi komust nýverið að því að hluti LDL-kólesterólsins sem nefnist ApoB100-LDL virkar eins og efnaboðberi frá lifrinni til fitufrumana og kemur í veg fyrir niðurbrot fitu.

Þegar líkaminn reynir á sig við æfingar myndast svonefnt ephinefrín (adrenalín) sem örvar fitufrumur til þess að nota fitu sem orkuefni. Þeir sem eru svo óheppnir að hafa mikið magn af ApoB100-LDL í blóðinu hafa minni getu til þess að nýta fitu sem orku sem stuðlar þannig að lélegu líkamsformi og offitu.
Víða um heim vinna vísindamenn að því markmiði að öðlast víðtækari skilning á þeim efnum sem stjórna orkubrennslu og valda offitu. Ný þekking á þessu sviði mun gera þeim kleift að takast á við sjúkdóma á borð við sykursýki 2, hjarta- og kransæðasjúkdóma og hjartaslag.
(PLoS ONE, 3(11):e3771 vefútgáfa)