Hvern dreymir ekki um bætiefni sem fyrir tilverkan hitamyndunar brennir fitu án þess að maður þurfi að lyfta litla fingri? Kannski ekki margir sem vilja viðurkenna það, en vissulega er þetta aðlaðandi tilhugsun ef aukaverkanir felast ekki í að á mann vaxi horn og hali. Hitamyndandi lyf og matvæli auka hitamyndun líkamans og þar með úrvinnslu fitu með því að auka myndun norephinephrine hormónsins og með því að hafa áhrif á efnaskiptaferla sem stjórna orkubúskap líkamans. Sum þessara lyfja og bætiefna innihalda efedrín, aspirín, polyfenól og forskolín.

Svisslendingurinn AG Dullo er vísindamaður sem endurskoðaði ýmsar rannsóknir sem hafa verið gerðar og komst að þeirri niðurstöðu að hægt væri að auka efnaskiptahraða og hitamyndun um 15% með því að blanda saman nokkrum hitamyndandi efnum. Flest bætiefnin sem markaðssett eru í dag eru talin hraða efnaskiptum um 2-5% og því verður að teljast nokkuð gott ef framtíðin ber það í skauti sér að hægt verði að hækka hlutfallið upp í 15%. Eins og staðan er í dag er hér einungis um vangaveltur að ræða og framtíðarsýn sem er ekki endilega handan við hornið.

(Obesity Reviews 12: 866-883, 2011)