Áhyggjur af hættulegum áhrifum tækninnar á huga og heila eru ekki bundnar við okkar kynslóð

Vísindamenn verða í síauknum mæli varir við að svefnvenjur snjallsímakynslóðarinnar eru að taka breytingum. Of lítill svefn hefur neikvæð áhrif á námsgetu, einkunnir og heilbrigði og stuðlar þar að auki að offitu og aukinni hættu á slysum. Þetta eru niðurstöður þeirra Jean-Philippe Chaput og Caoline Dutil sem starfa á Barnasjúkrahúsinu í Rannsóknarmiðstöð Austur-Ontario í Kanada en þau endurskoðuðu útgefnar rannsóknir á þessu sviði. Svefnleysi er alvarlegt heilbrigðisvandamál sem bætist við fjölmargar áskoranir nútímasamfélagsins.

Svefnleysi er skaðlegt- ekki tæknin.
Snjallsímar og tölvur hafa endurvakið áhyggjur manna af áhrifum offramboðs á upplýsingum á minni og vitsmuni. Það eru sömu áhyggjur og menn höfðu þegar prentvélin, bækurnar, útvarpið og sjónvarpið komu fram á sjónarsviðið.

Samfélagið hefur reyndar lengi haft áhyggjur af ofmettun upplýsinga. Conrad Gessner var líklega einna fyrstur til að hafa áhyggjur af upplýsingaflæðinu og áhrifum þess. Hann benti á að of mikið upplýsingaflæði valdi vitsmunum mannsins „glundroða og skaða“. Þessar viðvaranir bergmála í dag í fjölmiðlum þar sem vísindamenn hafa miklar áhyggjur af áhrifum of mikils upplýsingaflæðis vegna stafrænna tækja og tóla sem aldrei er slökkt á. Blessaður Gessner hafði ekki áhyggjur af yfirbrennslu heilans vegna snjallsíma og tölvunnar. Sjálfur sendi hann aldrei einn einasta tölvupóst um ævina. Hann dó 1565. Á þeim tíma kom nefnilega fyrsta prentvélin fram.

Margar kynslóðir hafa haft áhyggjur af hættulegum áhrifum tækninnar á huga og heila og áhyggjurnar hafa alla tíð verið svipaðar. Sókrates talaði á sínum tíma gegn skrifum. Hann sagði að orð rituð í texta hefðu sama gildi fyrir raunverulega þekkingu og myndir hafi fyrir myndefnið. Það væri hægt að mála mynd af ákveðnum stað, en það kæmi ekki í stað þess að vera raunverulega á staðnum og upplifa staðinn. Hann sagði að skrif myndu auka gleymsku í sál nemenda vegna þess að þeir noti ekki minningar. Þeir treysti á orðin en ekki eigin minningar. Það sé ekki raunveruleg þekking.

Þessar áhyggjur Sókratesar sem var uppi fjórum öldum fyrir Krist og Gessners á sextándu öld komu aftur fram þegar útvarpstæknin kom fram og allt ætlaði sömuleiðis um koll að keyra með tilkomu sjónvarpsins. Tilkoma tölvunnar og nú í seinni tíð sívakandi snjallsíma hefur ekkert slegið á þessar áhyggjur. Við lifum og hrærumst í upplýsingaflóði núna eins og fyrr á öldum og allt bendir til að komi til með að þróast á sama veg í fyrirsjáanlegri framtíð en þörfin fyrir nægan svefn gerir það ekki. Við skulum því sofa róleg.