Undanfarin ár hafa verið birtar nokkrar rannsóknir um kalkneyslu og tengsl kalks við léttingu. Það þarf ekki að koma á óvart að mjólkuriðnaðurinn hefur básúnað þessar niðurstöður þar sem mjólkurvörur innihalda mikið kalk. Rétt er að þeir sem eru í betra formi borða meira kalk en aðrir, kannski af því að þeir borða að jafnaði fjölbreyttara og hollara fæði en sófafólkið sem safnar spiki og fær helst kalk í rjómaísnum sem það hámar í sig að kvöldlagi. Nokkrar endurskoðanir á rannsóknum á þessu sviði hafa bent til þess að ekki megi eigna kalkneyslunni heiðurinn að allri léttingunni sem á sér stað. Bresk rannsókn sem gerð var við Háskólann í Exeter sýndi fram á bætiefni með kalki höfðu smávægileg áhrif til léttingar. Vísindamennirnir við háskólann tóku saman niðurstöður margra rannsókna og komust að þeirri niðurstöðu að fólk sem tók bætiefni sem innihéldu kalk léttist einu kílói meira á löngum tíma en samanburðarhópur. Kalkið virðist því hafa einhver áhrif á léttingu þó lítil séu. Kalk er hinsvegar nauðsynlegt fyrir heilbrigði okkar og mörgum er nauðsynlegt að gæta þess að fá nægt kalk með fæðunni eða í bætiefnum til þess að fyrirbyggja beinþynningu sem er alvarlegt vandamál. Beinþynning ein og sér er næg ástæða til þess að huga að kalkneyslunni og ef eitt kíló fær að fjúka í leiðinni er vel að verki staðið.

(Nutrition Reviews, 69: 335-343, 2011)