367px-Illustration_Ephedra_distachya0Hér á landi er notkun efedríns í bætiefnaformi bönnuð. Spurningin er sú hvort ástæða sé til að banna þetta fitubrennsluefni þegar á sama tíma er horft upp á ógnvænlega þróun offitu meðal almennings og alvarleg áhrif hennar. Talsvert fjaðrafok er í gangi í Bandaríkjunum vegna afstöðu FDA (Lyfja- og matvælaeftirlit Bandaríkjanna) gegn notkunar bætiefna sem innihalda ephedra eða marvöndul eins og jurtin nefnist á íslensku. Um er að ræða jurt sem orðin er uppistaðan í mörgum fitubrennslubætiefnum sem á markaðnum er í dag og er gríðarlega mikið notuð.Fjaðrafokið snýst að mestu um grein sem birtist í ritinu New England Journal of Medicine 21. Desember sl, þar sem vitnað er til þess að 41 einstaklingur (af 12 milljónum notenda) hafi hugsanlega orðið fyrir aukaverkunum vegna notkunar efedríns. Í greininni er sagt frá sömu sönnunargögnum og voru hrakin síðastliðið haust af sérfræðingum hjá FDA. Fjöldi rannsókna hafa sýnt fram á gagnsemi efedríns við fitubrennslu og viðhald vöðvamassa.

Talið er að efedrín sé hættulaust og virki vel sé það tekið í ráðlögðum skömmtum. Miklar gagnrýnisraddir hafa risið upp í Bandaríkjunum sem halda því fram að þessar tilraunir hins opinbera til þess að ráðskast með notkun efedríns hafi frekar með gróðahyggju lyfjaiðnaðarins að gera heldur en heilsu almennings. Það getur nefnilega enginn fengið einkaleyfi á efedríni. Það er ekki annað hægt en að setja stórt spurningarmerki við þá hræsni sem oft ber á þegar um náttúruleg efni er að ræða þegar stjórnendur lyfjageirans og jafnvel læknar hallmæla þessum efnum á þeim forsendum að aukaverkanir séu varasamar. Á sama tíma eru sömu menn nefnilega að gefa mjög varasöm lyf við tiltölulega meinlitlum sjúkdómum. Þeir þekkja það sem hafa þurft á því að halda að þegar lyf er tekið við einhverjum kvilla að lýsingar á aukaverkunum lyfsins eru oft á tíðum hryllilegar sé það ekki tekið við réttar aðstæður eða í réttu magni. Þetta er þó ekki það sem helst ætti að setja spurningarmerki við. Það sem menn þurfa að spyrja sig að á þessum tímapunkti er hvort réttlætanlegt sé að stöðva framgang virks efnis sem hefur greinilega hjálpað mörgum að losna við aukakílóin þegar offita er að tröllríða þjóðfélaginu með tilheyrandi heilsufarslegum afleiðingum. Hvort er verra? Er réttlætanlegt að banna notkun, sölu og innflutning efedríns þegar ljóst er að það skiptir sköpum fyrir fólk þegar aukakílóin eru annars vegar?

Það þarf ekki annað en að horfa í opinberar tölur um framþróun sjúkdóma sem tengjast offitu til þess að sjá að ekki veitir af allri þeirri hjálp sem völ er á. Stjórnvöld hér á landi ættu að skoða þessi mál með opnum huga og kanna hvort heilsu almennings sé betur borgið með því að leyfa efedrín.

Ekki skal fullyrt hér að svo sé, en augljóst er að ekki er annað en rökrétt að spyrja sig þeirrar spurningar í ljósi afleiðinga offituvandans. Efedrín er á bannlista Alþjóða Ólympíunefndarinnar yfir lyf sem leitað er að í lyfjaprófum á íþróttamönnum svo ljóst er að íþróttamenn mega ekki taka efedrín, en það eru heldur ekki þeir sem eru að berjast við offituvandann og engin ástæða til að leyfa notkun efedríns meðal íþróttamanna. Hér á landi er orðið algengt að fólk sem berst við aukakílóin í líkamsræktarstöðvum kaupi bætiefni sem innihalda efedrín í verslunum erlendis og flytji til landsins. Flestir bætiefnaframleiðendur í heiminum í dag framleiða nefnilega bætiefni sem innihalda efedrín vegna gríðarlegrar eftirspurnar og víða er það ekki lyfseðilsskylt.

Í loftinu liggur sá grunur að ástæðan fyrir árásum á efedrín eigi sér ekki endilega rætur í því að um stórhættulegt efni sé að ræða heldur að það sem að baki liggi sé að Lyfjaeftirlitið FDA í Bandaríkjunum sé undir þrýstingi frá lyfjarisunum vegna þess að þeir hafa árum saman verið að keppast við að búa til sérsniðin lyf ætluð til fitubrennslu. Þeir geta nefnilega ekki fengið einkaleyfi á náttúrulegum efnum einungis lyfjum sem búin eru til í rannsóknarstofum. Forsenda þess að lyf sé framleitt í dag er að hægt sé að fá einkaleyfi á framleiðslunni. Annars verður enginn ríkur.