iStock_000005398392MediumÞað er tvennt sem okkar háþróuðu vísindum hefur ekki tekist að leysa þrátt fyrir mikla fyrirhöfn en það er að lækna kvef eða skalla. Fjöldi karlmanna hefði líklega ekkert á móti því að fá alvöru lækningu á skalla þrátt fyrir að það þyki töff í dag að skarta flottum skalla. Skallameðferðirnar sem hafa verið í boði fram til þessa byggjast annað hvort á hárígræðslu eða hormónameðferð. Það að fikta í hormónakerfi líkamans er varasamt og getur haft alvarlegar aukaverkanir, ekki síst fyrir kynlífið. Hárígræðsla er dýr og afar sársaukamikil lausn sem skilar ekki alltaf tilætluðum árangri. Skalli myndast þegar hárnabbafrumur í húðinni hætta að virka. Þær eiga að gegna því hlutverki að örva hárvöxt í aðliggjandi hársekkjum. Það er hægt að græða þessar frumur í húðina til að örva vöxtinn en örvun arfbera sem sem stjórna hárnabbafrumunum er hinsvegar mun álitlegri aðferð. Hugsanlegt er að lyf geti vakið arfbera þannig að frumurnar byrji aftur að virka og hárvöxtur fari aftur af stað. Þannig verði hárígræðsla óþörf. Fjöldi vísindamanna vinnur að arfberarannsóknum í dag sem m.a. geta varpað ljósi á það í framtíðinni hvernig lækna megi skalla og margar þessar rannsóknir lofa góðu, en það er nokkuð ljóst að það kann að líða á löngu þar til þessar aðferðir verða í boði fyrir sköllótta.

(New Scientist, 26. október 2013)