Kraftaverkalyf eða hryllingur?

Það að bera saman vaxtarræktarmenn nútímans við þá sem voru á toppnum fyrir 15 árum er nánast ógjörningur. Meira að segja Arnold Schwartzenegger, frægasti vaxtarræktarmaður allra tíma var lítill í samanburði við meistara nútímans. Hann var 107 kg þegar hann sigraði Mr. Olympia 1974. Ronnie Coleman sem sigraði Mr. Olympia á síðasta ári var hinsvegar 130 kg. Menn virðast alltaf stækka og stækka og ekki sér fyrir enda þeirrar þróunar. Íþróttamenn í styrktaríþróttum eru engu frábrugðnari. Þeir sem iðka íþróttir nútímans eru eins og af annarri plánetu þegar þeir eru bornir saman við hetjur fortíðarinnar. Það er eitthvað yfirnáttúrulegt við það að sjá 150 kg skorinn íþróttamann hlaupa sem eldingu á íþróttavelli. Þetta er engu að síður staðreyndin í dag. Lyftingamenn og kraftlyftingamenn lyfta þyngdum í dag sem voru taldar óhugsandi fyrir nokkrum árum.

Hvernig fara þessir íþróttamenn að því að byggja upp þennan vöðvamassa, styrk og kraft. Betrumbætur í æfingaaðferðum hafa vissulega hjálpað til en hið augljósa svar er almenn notkun anabólískra stera og vaxtarhormóna. Hinsvegar hefur lyfjaeftirlit gert íþróttamönnum í sumum íþróttagreinum erfitt fyrir að taka stera og komast upp með það. Þess vegna hafa íþróttamenn snúið sér í auknum mæli að vaxtarhormónum. Hvernig virkar svo þetta rándýra lyf og ef svo er eru þá aukaverkanirnar þá það slæmar að það sé óhugsandi að taka það? Eins og staðan er í dag eru að berast svör við þessari spurningu um þetta vinsæla lyf en til eru nokkrar vel gerðar rannsóknir á lyfinu þó mest af upplýsingunum komi frá íþróttamönnum sem hafa reynslu af að taka það.

Hvað er vaxtarhormón?
Vaxtarhormón (Growth hormone nefnt HGH hér á landi) er framleitt í heiladinglinum sem er lítill innkirtill við heilabotninn og fer þaðan í blóðrásina og stuðlar að uppbyggingu frumna í öllum líkamanum. Vaxtarhormón er þó ekki einungis framleitt í heiladinglinum, heldur einnig í litlu magni af tauga- mótefnakerfis- og æxlunarfrumum, en hefur þá staðbundin áhrif á þá vefi sem í hlut eiga. Eins og nafnið gefur til kynna á vaxtarhormón stóru hlutverki að gegna í uppvexti og þroska í barnæsku og á unglingsárum. Vaxtarhormón hefur þó ekki bein áhrif á vöxt, heldur hvetur lifrina til þess að framleiða efni sem nefnast insúlín- prótínhormón (IGF-1 og IGF-2). Vísindamenn og íþróttamenn sem hafa aðgang að IGF-1 (Insulin growth factor 1) hafa stundum tekið þessi tvö efni saman. Dr. Jon Linderman og félagar við Dayton Háskólann komust að því að vaxtarhormón hafði meiri uppbyggingaráhrif þegar það var gefið ásamt IGF-1 en þegar það var gefið eitt og sér. Það eru einungis vaxtarhormón úr prímötum (mönnum, öpum, górillum) sem hafa uppbyggjandi áhrif á menn. Íþróttamenn sem taka nautgripahormón eru einungis að kasta peningum sínum á glæ. Vaxtarhormón hefur margar aðrar verkanir í líkamanum sem gerir það aðlaðandi fyrir vaxtarræktarmenn, íþróttamenn og eldra fólk sem berst gegn öldrun. Það kemur jafnvægi á efnaskipti fitu og kolvetna, jafnvel í fullorðnum og háöldruðu fólki.

Vaxtarhormónið hefur einnig mikilvæg áhrif á fitufrumur. Það örvar fitulosun út í blóðrásina og dregur úr fitusöfnun. Vaxtarræktarmenn sem hafa tekið þetta lyf hafa allt að því allir tekið eftir því að það hjálpar þeim að skera sig niður. Fyrir u.þ.b. 20 árum rannsakaði greinarhöfundur heimsklassa kraftlyftingamann sem tók vaxtarhormón fyrir landskeppni öldunga í Bandaríkjunum. Á fjórum vikum bætti hann á sig 7 kílóum af hreinum vöðvamassa og léttist um 7 kg af fitu.2 Þetta eina dæmi er ekki til þess fallið að heimfæra upp á hinn almenna vaxtarræktarmann en bendir til að vaxtarhormón sé afkastamikið til fitubrennslu og vöðvauppbyggingar. Því miður stækkuðu jafnframt hjartaveggirnir í íþróttamanninum um 10% sem gæti þegar upp er staðið valdið hjartavandamálum. Vaxtarhormón er stór þáttur í svokölluðu fyrirmyndar uppbyggingarumhverfi sem samansett er úr anabolískum hormónum (androgen, vaxtarhormón og IGF), vöðvaátökum, orku (amínósýrur og kolvetni) og nægri hvíld. Þessir uppbyggingarþættir eru háðir hver öðrum og ef þeir eru ekki í jafnvægi verður vöðvavöxturinn ekki í hámarki. Ef æft er t.d. of mikið til langs tíma bælast anabólísku hormónarnir, glúkósabirgðir lifrar og vöðva tæmast og vöðvar taka að brotna niður. Ef æft er mikið og gætt þess að hvíld sé næg verða viðtakar í frumum næmari og stuðla þannig að uppbyggingu. Það er því alls ekki nóg að taka vaxtarhormón sé ætlunin að ná vöðvauppbyggingu því ef einn af þessum þáttum skortir verður árangurinn enginn.

Vinsældir vaxtarhormóns
Vaxtarhormón er orðið það vinsælt að það er eitt helsta lyfið sem notað er til þess að hamla gegn öldrunarferlinu. Sérstakar læknastofur sem kenna sig við langlífi hafa sprottið upp víða um heiminn en þær sérhæfa sig í að skrifa upp á vaxtarhormón fyrir eldra fólk og vaxtarræktarmenn. Þessar læknastofur hafa málað rósrauða mynd af dásemdum þessarar lyfjameðferðar og segja m.a. frá því að hreinn vöðvamassi aukist um 9% og að fita minnki um 14% eftir sex mánaða meðferð. Ennfremur lofa þær styrktaraukningu, auknu þoli, hjartastyrkleika, orku og eflingu mótefnakerfisins. Ennfremur lofa þær að vaxtarhormón bæti húðina, flýti fyrir því að sár grói, dragi úr streitu og auki þéttleika beina. Meðferð á þessum lækningastofum er langt frá því að vera ódýr. Forskoðun og læknismat getur kostað allt að 200.000,- kr og við það bætist vikulegur kostnaður við sjálft lyfið. Yfirleitt eru gefnar um þrjár einingar af vaxtarhormóni þrisvar í viku sem kosta um 18.000,- kr á viku. Vitað er að margir vaxtarræktarmenn taka meira en það sem fljótlega getur kostað mikla peninga. Það jákvæða við þessar læknastofur er hinsvegar það að þær starfa löglega og þeir sem þær sækja eru undir stöðugu eftirliti lækna. Það er sem sagt ekki hægt að kæra menn fyrir notkun óleyfilegra efna. Fyrir þetta borga menn hinsvegar miklar fjárhæðir. Hægt er að nálgast vaxtarhormón á ódýrari hátt á svarta markaðinum en sú leið er þyrnum stráð. Í fyrsta lagi er slíkt ólöglegt og í öðru lagi er engin trygging fyrir því að verið sé að kaupa raunverulegt vaxtarhormón. Vegna mikils ágóða hafa falsarar lagt mikið á sig við að falsa umbúðir og merkingar þekktra lyfjaframleiðenda. Greining á vaxtarhormónum sem ganga á svarta markaðinum sýnir að mikið af þeim inniheldur stera, HCG eða clenbuterol. 8 Þannig er auðvelt að eyða miklum peningum í eitthvað sem getur verið skaðsamt. Í þriðja lagi getur vaxtarhormón í lyfjaformi valdið varanlegum aukaverkunum. Of mikið af vaxtarhormónum getur valdið ofvexti (æsavexti). Alvarlegustu aukaverkanirnar af vaxtarhormónum eru sykursýki, of hár blóðþrýstingur og hjartasjúkdómar. Til að byrja með vaxa hendur og fætur óeðlilega mikið og vefir á þessum líkamshlutum bólgna sem getur valdið því að menn þurfi stærra skónúmer eða stækka giftingahringinn. Ennfremur munu stuttu beinin í andlitinu breytast og áhrif þess hafa gjarnan verið kölluð Neanderthalsmanns einkenni. Mikil aukning vaxtarhormóna veldur einnig breytingum á beinum og sinum sem leiða til gigtar, og sinaskeiðabólgu. Önnur einkenni eru að húð þykknar og virkar olíuborin, varir, nef og tunga stækkar, rödd dýpkar, hrotur aukast, sviti og svitalykt eykst, höfuðverkir, versnandi sjón og í konum valda þau óreglu í tíðahring og leka í brjóstum en getuleysi hjá karlmönnum. Ennfremur stækka sum líffæri, þar á meðal lifur, milta, nýru og hjarta. Fólk með þessi ofvaxtareinkenni fær ennfremur oft útvöxt í slímhúð ristilsins sem getur þróast yfir í krabbamein. En hversu raunveruleg er hættan af ofvexti fyrir íþróttamenn? Vandleg athugun á læknisfræðilegum gögnum fann ekkert samhengi á milli útvaxtar í íþróttamönnum og notkunar vaxtarhormóna. Fjöldi sérfræðinga halda því fram að notkun vaxtarhormóna valdi útvexti en í raun er engin rannsókn sem sýnir fram á samband útvaxtar og notkunar vaxtarhormóna í íþróttamönnum. 7 Líklegt þykir að taka þurfi mikið magn í langan tíma til þess að einkenni útvaxtar fari að verða áberandi og líklega yrðu flestir íþróttamenn gjaldþrota áður en að því kæmi.


Virka vaxtarhormón?
Vaxtarhormón hafa veruleg uppbyggjandi áhrif á vöðva og skera niður fitu. Það hefur sýnt sig í rannsóknum á dýrum 6 og mönnum.10 12 Vaxtarhormón mynda bandvefi liðamót og stækka vöðva. Meðal vaxtarræktarmanna gengur sú sögusögn að vaxtarhormón myndi nýjar vöðvafrumur en sterar stækki einungis þær frumur sem fyrir eru. Þetta er þó líklega óskhyggja þar sem engar rannsóknir benda til þess. Goðsagnir meðal íþróttamanna geta aldrei komið í stað vandaðra vísindalegra rannsókna og því skildi varast að taka of mikið mark á einstökum árangurssögum íþróttamanna. Vaxtarhormón hefur ekki sömu áhrif á taugakerfið og sterar gera og því skilar það ekki jafn góðum árangri í styrktar og hraðaíþróttum. Sérfræðingar deila um gildi þess að nota vaxtarhormón til þess að auka styrk og árangur íþróttamanna.

Margar rannsóknir sýna fram á aukningu í vöðvamassa en flestar þeirra sýna ekki fram á neina aukningu í styrk. 3, 4, 7, 11 Það er hugsanlegt að mikilvægt atriði hafi farið framhjá vísindamönnunum í sambandi við samspil vöðva, styrk og frammistöðu. Styrktarmælingar eru yfirleitt settar í samband við köst, stökk eða spretthlaup. Í því sambandi kemur á óvart að fáar rannsóknir hafa sýnt fram á aukna frammistöðu vegna aukins styrks. Þaulþjálfaðar hreyfingar eru inngrónar í taugakerfið og það tekur langan tíma að nýta sér aukinn styrk í flóknum hreyfingum, jafnvel þrátt fyrir að um sé að ræða styrktaræfingar eins og bekkpressu eða hnébeygju. Þannig er líklegt að vaxtarhormón bæti frammistöðu á endanum sem kann að taka langan tíma. Fyrir vaxtarræktarmenn, þá eykur vaxtarhormón vöðvamassa og sker niður fitu. Hinsvegar er vert að íhuga hvort það sé peningana virði og áhættunnar (lagalega og heilsufarslega). Fyrir flesta vaxtarræktarmenn borgar sig ekki að taka vaxtarhormón. Árangurinn er ekki það mikið meiri en hægt er að fá með góðum æfingum og réttu mataræði að það borgi sig fyrir þá að taka áhættuna. Ef menn sjá sig knúna til að taka það samt sem áður er ráðlegt að halda sig við lágmarksskammta til að byrja með. Líkurnar á alvarlegum aukaverkunum aukast verulega við hærri skammta. Notandinn ætti að fylgjast með breytingum á tönnum, kjálka, andliti, höndum og fótum og merkjum um sykursýki sem fela í sér sífelldan þorsta, þvaglát og minnkandi orku. Umfram allt skulu íþróttamenn varast að gerast tilraunadýr og gefa góðri æfingaáætlun og mataræði möguleika áður en farið er út í annað.


Heimildir:1. Allen, D. L., J.K. Linderman, R.R. Roy, R.E. Grindeland, V. Mukku, and V. R. Edgerton. Growth hormone/IGF-1 and/or resistive exercise maintains myonuclear number in hindlimb unweighted muscles. J Appl Physiol 83: 1857-1861, 1997. 2. Brooks, G.A, T.D. Fahey, K. Baldwin, and T. White. Ecercise Physiology: Human Bioenergetics and its Applications. Mt. View, CA: Mayfield Publishing, Co. 2000. 3. Deyssig, R., H. Frisch, W.F.Blum, and T. Waldhor. Effecto of growth homone treatment o­n homonal parameters, body composition and strength in athletes. Acta Endocrinol (Copenh) 128: 313-8, 1993. 4. Frisch, H. Growth hormone and body composition in athletes. J. Endocrinol Invest 22: 106-109: 1999.5. Hikida, R.s., J.R. Knapp. W.Y Chen, J.A. Gozdanovic, and J.J. Kopchick. Effects of bovine growth hormone analogs o­n mouse skeletal muscle structure. Growth Dev Aging 59:121-128, 1995. 6. Linderman, J.K, K. L. Gosselink, F.W. Booth, V. R. Mukku, and R.E. Grindeland. Resistance excercise and growth hormone as countermeasure for skeletal muscle atrophy in hindlimb-suspended rats. Am J Physiol 267: R365-371.1994. 7. Macintyre, J. G. Growth hormone and athletes. Sports Med 4: 129-142,1987. 8. Ritsch, M., and F. Musshoff. Dangers and risks of black market anabolic steriod abuse in sports gas chromatography-mass spectrometry analyses. Sportverletz Sportschaden 14: 1-11, 2000.9. Sarkar, R., C. J. Dickinson, and J.C. Stanley Effects of somatostatin, somatostatin analogs, and endothelial cell somatostatin gene transfer o­n smooth muscle cell proliferation in vitro. J Vasc Surg 29: 685-693, 1999. 10. Taaffe, D. R., L. Pruitt, J. Reim, R. L. Hintz, G. Butterfield, A. R. Hoffman, and R. Marcus. Effects of recombinant human growth hormone o­n the muscle strength response to resistance exercise in elderly men. J Clin Endocrinol Metab 79: 1361-1366, 1994. 11. Yareshescki, K.E. Growth hormone effects o­n metabolism, body composition, muscle mass, and strength. Exerc Sport Sci Rev 22: 285-312, 1994. 12. Yarasheski, K. E., J. J. Zachwieja. J. A. Campbell, and D. M. Bier. Effect of growth hormone and resistance exercise o­n muscle groth and strength in older men. Am J. Physiol 268: E268-276, 1995.