11. Febrúar. 2002

Frumvarp um lögleiðingu Ólympískra hnefaleika hefur verið samþykkt á Alþingi. Fyrir áhugamenn um þessa íþrótt er ánægjulegt að geta stundað þessa íþrótt löglega. Áhugamenn víðsvegar um landið fögnuðu víða um land eins og ætla mátti enda þessi lögleiðing ekki síst merki um að forsjárhyggju íslenskra stjórnvalda sé ekki alls varnað. Lögð var fram breytingatillaga þess efnis að banna höfuðhögg, ekki bara í áhugamannahnefaleikum, heldur í öllum bardagaíþróttum á Íslandi. Jafnframt var hugmyndin sú að láta ÍSÍ breyta reglunum í viðkomandi íþróttagreinum – sem flestar eru alþjóðlegar keppnisgreinar. Ekki getur undirritaður sagt annað en að það að láta sér detta þetta í hug er kostulegt. Vísindalegar rannsóknir hafa sýnt að knattspyrnumenn geta orðið fyrir skaða við það að skalla bolta. Hvernig yrði svipurinn á þingheimi ef lagt yrði fram frumvarp þess efnis að banna að skalla í fótbolta og jafnframt leggja það fyrir ÍSÍ að breyta reglunum? Það yrði laglega háðslegt glottið á andstæðingunum þegar okkar menn mættu í alþjóðleg knattspyrnumót. Þessar breytingatillögur voru að sjálfsögðu ekki samþykktar, enda erfitt að sjá hvar þetta myndi enda. Verður forsjárhyggjuframtíðin sú að við megum ekki ganga yfir götu nema í bólstruðum búningum með hjálm á höfði? Heimurinn er hættulegur og tekur á sig högg öðru hverju – sættu þig við það.