Meðal íþróttamanna sem þurfa að fara í lyfjapróf og hafa eitthvað misjafnt á samviskunni hefur gengið það húsráð að borða lakkrís til þess að komast í gegnum lyfjapróf án þess að falla. Hvort eitthvað sé til í að það virki hefur ekki sést á pappír fyrr en nýlega. Lakkrís dregur úr testosterónframleiðslu líkamans samkvæmt nýrri rannsókn. Eins og menn vita af ýmsum öðrum rannsóknum skiptir magn testósterón í líkamanum verulegu máli fyrir vöðvauppbyggingu og árangur í styrk. Líkaminn framleiðir misjafnlega mikið af testósteróni, en þeir sem framleiða mest bæta hraðar á sig vöðvamassa en þeir sem hafa minna. Ýmsir þættir hafa áhrif á magn testósteróns í líkamanum eins og mataræði, streita, kynlíf og vellíðan. Lakkrís er nokkuð sem hinsvegar getur dregið verulega úr magni testósteróns í líkamanum. Ítalskir vísindamenn komust að því að með því að gefa ungum karlmönnum lakkrís minnkaði testósterón þeirra um 30%. Androstenedione forhormón mældist í auknum mæli í mönnunum ásamt fleiri þáttum sem eiga þátt í formyndun testósteróns sem þótti vísbending um að lakkrís truflaði testósterónframleiðslu. Ef þú borðar lakkrís reglulega og hefur verið að velta fyrir þér af hverju árangurinn lætur á sér standa í líkamsræktinni eða ef kynlífið hefur ekki verið upp á marga fiska, skaltu endurskoða lakkrísátið. (HealthSCOUT, 6 október 2001)