Kreatín-mónóhýdrat eykur kraft í æfingum og flýtir fyrir orkuheimt vöðva eftir erfiðar æfingar. Um þetta vitna margar rannsóknir.

Koffín eykur einnig kraft, styrk og stuðlar að auknu þoli. Blanda koffíns og kreatíns þarf því ekki að koma neinum á óvart. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að blanda þessara tveggja efna eykur kraft meira en þegar efnin eru tekin ein og sér.

Samkvæmt rannsókn sem gerð var í Taiwan kom í ljós að 6 mg skammtur af koffíni fyrir hvert kíló líkamsþyngdar jók þolgetu í þrekprófi á þrekhjóli. Þátttakendur höfðu fengið kreatín-mónóhýdrat í fimm daga (0,3 grömm fyrir hvert kíló líkamsþyngdar).

Þessi blanda hafði engin áhrif á hámarks-súrefnisnotkun en æfingagetan jókst. Íþróttamenn geta því haft gagn af blöndu kreatíns og koffíns við æfingar.

(European Journal Sports Science, 12:338-346)